Bottast aftur í toppsætinu

Valtteri Bottas hjá Mercedes átti hraðasta hring seinni æfingar dagsins í Silverstone, eins og á þeirri fyrri í morgun. Liðsfélaga hans Lewis Hamilton tókst ekki að velta honum úr sessi vegna mistaka í atlögu að topptímanum.

Aðeins munaði 43 þúsundustu úr sekúndu á Bottas (1:28,496) og Hamilton (1:28,543) og Kimi Räikkönen (1:28,828) hjá Ferrari átti þriðja besta tímann en var 0,3 sekúndum lengur í förum.

Tími Bottas var meira en hálfri sekúndu fljótari með hringinn á seinn æfingunni en þeirri fyrri. Munar þar mjög um að í morgun brúkaði hann aldrei mýkstu dekkin sem ökumenn hafa úr að spila.

Räikkönen og Sebastian Vettel (1:28,956) hjá Ferrari voru nær keppinautunum hjá Mercedes að tíma á seinni æfingunni. Höfðu þeir og sætaskipti við ökumenn Red Bull sem voru fljótari með hringinn í morgun en Ferrariþórarnir. Var Max Verstappen (1:29,098) aðeins 0,1 sekúndu á eftir Vettel en hálfrar sekúndu bil var síðan í Daniel Ricciardo (1:29,586).

Í sætum sjö til tíu urðu - í þessari röð - Nico Hülkenberg hjá Renault, Felipe Massa hjá William, Fernando Alonso hjá McLaren og Esteban Ocon hjá Force India. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert