Hæg punktering hjá Vettel

Hæg punktering olli vindleysi visntra framdekks Sebastians Vettel undir lok …
Hæg punktering olli vindleysi visntra framdekks Sebastians Vettel undir lok keppni í Silverstone.

Hæg punktering var ástæða þess að vindur fór úr dekki á Ferrarifák Sebastians Vettel undir lok breska kappakstursins. Er það niðurstaða rannsóknar Pirelli á leyfum dekksins.

Ekki var nóg að springi á vinstra framdekki hjá Vettel heldur fór vindur sömuleiðis úr sama dekki hjá liðsfélaga hans Kimi Räikkönen, allt gerðist það um svipað leyti. Báðir urðu að koma inn og fá ný dekk undir og töpuðu sætum fyrir bragðið.

Räikkönen féll úr öðru sæti í það þriðja og Vettel úr fjórða í það sjöunda. Pirelli tók bæði dekkin í sínar vörslur til tæknilegrar úttektar. Enn liggja ekki fyrir niðurstöður á því hvað olli vanda Räikkönen.

„Færri vísbendingar er að finna í dekki Kimi Räikkönen um hvað fór úrskeiðis. Það kallar á frekari rannsóknir og greiningar sem haldið er áfram í tilraunastofu Pirelli og prófunarstöð. Sú rannsókn tekur nokkra daga til viðbótar,“ segir í tilkynningu frá Pirelli.

Hvað olli svo hinni hægu punkteringu hjá Vettel hefur ekki verið látið uppi. Bæði Pirelli, Ferrari og hin liðin öll vona að það liggi allt fyrir áður en næsti kappakstur, í Ungverjalandi um aðra helgi, rennur upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert