Alonso kveðst betri

Fernando Alonso hefur lýst 2017-keppnistíðinni sem „frábærri“ þrátt fyrir erfiðleika McLarenliðsins á að komast í hóp fremstu liða. Hann segist mun betri ökumaður nú en þegar hann vann titil ökumanna tvö ár í röð fyrir áratug röskum.

Bæði Alonso og McLaren gerðu sér vonir um að stíga skref fram á við í ár en endurhönnuð Hondavélin hefur verið til vandræða og skort bæði endingu og afl. Hafa þó vissar framfarir í þeim efnum átt sér stað í síðustu mótum.

McLaren er næst neðst í keppni liðanna, einu sæti ofar en Sauber, og Alonso er í aðeins 15. sæti í titilkeppni ökumanna, þökk sé frammistöðu hans í Bakú og Búdapest.

Þrátt fyrir erfiðleikana er Alonso ánægður með eigin getu og árangur sinn í Indy 500 kappakstrinum í Indianapolis. „Sem lið getum við ekki verið ánægðir með tímabilið það sem af er. Í fyrra komumst við alla jafna í lokalotu tímatökunnar, aðallega í níunda og tíunda sæti sem var meðaltalssæti okkar. Í ár hefur brösugar gengið.

Hvað mig sjálfan varðar hefur tímabilið verið fínt. Með 2017-bílnum get ég aftur beitt aksturstækni minni og mér finnst ég vera miklu samkeppnisfærari í ár en undanfarin ár. Mér finnst ég vera samkeppnisfær í brautinni,“ segir Alonso sem átti 36 ára afmæli á keppnishelginni í Búdapest. 

Hann segist hafa þurft að breyta styrktaræfingum sínum með vaxandi aldri en segir að löng reynsla bæti upp allt snerputap. „Maður verður að æfa mun markvissar og þarf lengri tíma til að jafna sig af æfingum. „Það er ekki lengur inni í myndinni að spila tennis og fótbolta a´miðvikudegi og fimmtudegi fyrir keppnishelgar. Eftir slíkt myndi mann verkja hér og þar í skrokkinn á sunnudeginum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert