Veðjar á Vettel

Red Bull stjórinn Helmut Marko segist veðja á að Sebastian Vettel verði „enn öflugri“ eftir sumarhlé formúlu-1 og innsigla sigur í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna. Sé að vænta framfara í Ferrarifáknum í komandi mótum.

Mercedesliðið drottnaði keppni í íþróttinni á árunum 2014-16 eftir tilkomu hverfilblásinna V6-véla. Í ár hefur Ferrari tekist að brúa bilið og ógnar Ferrari ekki aðeins í titilslag ökumanna heldur einnig í keppninni um heimsmeistaratitil liða.

Vettel hefur 14 stiga forskot á Lewis Hamilton hjá Mercedes eftir 11 mót en hvor um sig hafa þeir unnið fjögur mót.

„Ég hef trú á Vettel því ég þekki andlegan styrk hans og Ferrari hefur tekið sig á,“ er haft eftir Marko á opinberri heimasíðu formúlu-1, en þar var hann beðinn að tippa á hver verður  heimsmeistari ökumanna í ár.

„Ferrari var augljóslega með öflugri bíl á fyrri helmingi keppnistíðarinnar þótt ekki gætu þeir af ýmsum ástæðum fullnýtt öll tækifæri í keppni sem gáfust,“ segir Marko.

Hann var á tíma yfirmaður með Vettel sem dvaldi um sex ára skeið hjá Red Bull og vann heimsmeistaratitil ökumanna fjórum sinnum í röð. „Seb mun brúka sumarhléið til að undirbúa sig og koma enn öflugri til leiks – þannig þekki ég hann,“ sagði Marko.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert