Renault með uppfærslur í Spa og Monza

Jolyon Palmer á ferð á Renault í Hungaroring við Búdapest.
Jolyon Palmer á ferð á Renault í Hungaroring við Búdapest. AFP

Renault mætir til leiks í tveimur næstu mótum, í Spa í Belgíu og Monza á Ítalíu, með uppfærslur í aflrásir keppnisbíla sem fá vélar frá franska bílsmiðnum.

Um er að ræða uppfærðan hugbúnað og vélræna íhluti, en hvort tveggja er liður í tilraunum Renault til að minnka forskot Mercedes og Ferrari í vélarafli.

Remi Taffin yfirmaður véladeildar Renault segir að „enn fleira sé í pípunum“ varðandi að auka mótoraflið í seinni mótum en stórtækar uppfærslur bíði þó næsta árs.

Endingartraust vélanna batnaði mjög á fyrri helmingi keppnistíðarinnar, að sögn Taffin. Hann segir að auk þróunar aflrásarinnar sé verið að bæta flæði lofts um keppnisbíl Renault og bindur hann vonir við að allt þetta sýni sig í betri árangri.

Renault er í áttunda sæti í keppni liðanna en aðeins 15 stigum frá fjórða sætinu sem Williamsliðið vermir í harðri keppni miðjuliðanna í formúlu-1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert