Jafnaði met Schumachers

Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna ráspól belgíska kappakstursins í Spa-Francorchamps en í leiðinni jafnaði hann ráspólamet Michaels Schumacher sem á sínum tíma hóf keppni fremstur 68 sinnum.

Í leiðinni setti Hamilton brautarmet í Spa (1:42,553) og Sebastian Vettel (1:42,795) hjá Ferrari var einnig undir því eldra, frá í annarri lotu tímatökunnar.

Kimi Räikkönen (1:43,270) hjá Ferrari hafði háð einvígi við Hamilton um toppsætið í tímatökunni og stefndi framan af lokalotunni á hraðari tíma en hlekktist á í miðri braut og hafnaði í fjórða sæti. Eftir basl í fyrri lotum náði Vettel  sér loks á strik í lokaatlögu að tíma og hefur keppni af fremstu rásröð við hlið Hamiltons.

Valtteri Bottas (1:43,094) hjá Mercedes varð þriðji og leggja þeir landarnir hann og Räikkönen af stað hlið við hlið á morgun.

Í sætum fimm til tíu - i þessari röð - urðu Max Verstappen og Daniel Ricciardo hjá Red Bull, Nico Hülkenberg hjá Renault, Sergio Perez og Esteban Ocon hjá Force India og svo Jolyon Palmer hjá Renault sem gat þó ekki sett tíma þar sem gírkassinn brást í fyrstu atlögu hans að tíma í lokalotu tímatökunnar í Spa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert