Bottas fljótastur

Valtteri Bottas hjá Mercedes ók hraðast á seinni æfingu dagsins í Monza og liðsfélagi hans Lewis Hamilton næsthraðast. Höfðu þeir þar með sætaskipti á lista yfir hröðustu hringi frá fyrri æfingunni í morgun. 

Sem og í morgun voru Sebastian Vettel og Kimi Räikkönen hjá Ferrari í næstu sætum og þar á eftir ökumenn Red Bull, Max Verstappen og Daniel Ricciardo. 

Munurin var minni en í morgun en þannig munaði innan við tíunda úr sekúndu á tímum Hamiltons og Vettels. Hálfum tíunda munaði á Mercedesmönnunum, eða 56 þúsundustu úr sekúndu.

Athygli vekur að á þessari braut, þar sem vélarafl og hraði ræður svo miku, urðu þeir McLarenmennirnir Stoffel Vandoorne og Fernando Alonso í sjöunda og áttunda sæti. Á þeim munaði 21 þúsundasta úr sekúndu og á Alonso og Bottas munaði hálfri annarri sekúndu.

Esteban Ocon hjá Force India átti níunda besta tímann og Felipe Massa hjá Williams þann tíunda besta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert