Massa óvænt fljótastur

Röð ökumanna á lista yfir hröðustu hringi í lokaæfingunni fyrir tímatökuna í Monza hljómar allt öðru vísi en venjulega því engan toppmannanna var þar að finna.

Felipe Massa átti hraðasta hring þegar upp var staðið og nýliðinn og liðsfélagi hans Lance Stroll hjá Williams ók næsthraðast. Í þriðja sætinu varð svo Nico Hülkenberg hjá Renault.

Skýrist þetta að verulegu leyti af því að úrhelli var á meðan á æfingunni stóð. Vegna veðurs var æfingunni var upphafi æfingarinnar frestað og á endanum höfðu ökumenn aðeins um 15 mínútur af 60 til að prófa sig í brautinni.

Fór og svo að einungis sjö ökumenn létu reyna á tímahring hjá sér, en auk framangreindra voru það þeir Carlos Sainz hjá Toro Rosso, Jolyon Palmer hjá Renault, Marcus Ericsson hjá Sauber og Daniil Kvyat hjá Toro Rosso.

Aðrir ökumenn létu nægja að koma beint inn í bílskúr aftur í hvert sinn sem þeir prófuðu brautina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert