Hamilton í tölum

Lewis Hamilton sló eitt af metum Michaels Schumacher er hann vann í gær sinn 69. ráspól á ferlinum. Spurning er hvort enski ökumaðurinn nái að bæta fleiri met þýska risans.

Alls hefur Hamilton komið fyrstur í mark í 58 mótum og á enn talsvert í að komast með tærnar þar sem Schumacher hafði hælana, en hann vann alls 91 kappakstur í formúlu-1. Engir ökumenn eru þarna á milli að fjölda sigra.

Fyrsta mótssigur sinn vann Hamilton í kanadíska kappakstrinum í Montreal 2007, en þar vann hann einnig sinn fyrsta ráspól. 

Í dag keppir Hamilton í sínum 201. kappakstri í formúlu-1 en í síðasta móti - í Belgíu fyrir viku - vann hann bæði ráspól og sigur. Hann á töluvert í land með að keppa oftar en aðrir því þar eru nokkrir ökumenn með yfir 300 mót. Flest Rubens Barrichello sem keppti í alls 323 formúlu-1 mótum.

Lewis Hamilton er nú á sinni elleftu keppnistíð í röð en hann hóf keppni með McLaren 2007. Hefur hann unnið minnst einn sigur á hverju einasta ári.

Hann hefur komist á verðlaunapall í rúmlega helmingi allra móta sinna, eða 111 sinnum. Árin 2015 og 2016 stóð hann 17 sinnum á palli hvort árið sem er met, sem hann deilir með Schumacher og Sebastian Vettel.

Þá á Hamilton það óvenjulega tölfræðimet að hafa leitt að minsta kosti einn hring 18 kappakstra í röð.

Þrisvar sinnum hefur Hamilton orðið heimsmeistari ökumanna í formúlu-1 eða 2008, 2014 og  2015. Aðeins fjórir aðrir hafa unnið þrjá titla eða fleiri, Vettel, Schumacher, Juan Manuel Fangio og Alain Prost.

Alls hefur Hamilton átt hraðasta hring í 37 mótum. Þrír hafa gert betur og þar er Schumacher á toppnum með 77 hröðustu hringi.

Hamilton er eini þeldökki ökumaðurinn sem unnið hefur formúlu-1 kappakstur og meistaratitil. Hann var aðeins 22 ára er hann hóf keppnisferilinn í formúlu-1 í Melbourne í Ástralíu í mars 2007.  Stóð hann níu sinnum í röð á verðlaunapalli á jómfrúrári sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert