Niðurlægðir á heimavelli

Lewis Hamilton var í þessu að vinna ítalska kappaksturinn í Monza og tók með því forystuna í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna í fyrsta sinn frá í fyrrasumar. Annar varð liðsfélagi hans Valtteri Bottas en Mercedesbílarnir léku sér að Ferrarifákunum í musteri ítalska liðsins eins og kettir að músum.

Aldrei var um neina keppni að ræða um fyrstu tvö sætin, þvílíkir voru yfirburðir Mercedesmanna. Niðurlægðu þeir heimamenn en það var ekki fyrr en á síðasta þriðjungi kappakstursins sem Ferraribíll komst upp í þriðja sæti. Kom Vettel í mark 36 sekúndum á eftir Hamilton.

Eins og vill verða í hröðum brautum sem Monza átti lítil keppni sér stað um önnur sæti einnig, nema um fimmta sætið milli Esteban Ocon hjá force India, Lance Stroll hjá Williams og Kimi Räikkönen hjá Ferrari. Stóð sú glíma nokkuð lengi eða allt þar til Räikkönen hafði unnið sig fram úr báðum.

Sebastian Vettel hjá Ferrari  bjargaði því sem bjargað varð með því að klifra jafnt og þétt upp í þriðja sæti og hélt því eftir rimmu við Daniel Ricciardo hjá Red Bull, sem hóf  keppni 10 sætum aftar en Vettel, eða í því sextánda.

Räikkönen rauk vel af stað í ræsingunni og tók fram úr landa sínum Valtteri Bottas en samstuð þeirra í millum gerði það að verkum að bíll hans var illmeðfærilegur eftir það og endaði Räikkönen í fimmta sæti, því sama og hann hóf kappaksturinn úr. 

Ocon hóf keppni þriðji en rauk fram úr Stroll inn að fyrstu beygju og tók fram úr honum. Urðu þeir á endanum í sjötta og sjöunda sæti. Felipe Massa hjá Williams varð áttundi, Sergio Perez hjá Force India níundi og tíundi Max Verstappen hjá Red Bull. Sprakk hjá honum dekk í samstuði í byrjun.

Hamilton tekur forystu

Sigurinn er sá sjötti á árinu hjá Hamilton og sá fjórði á 11 árum í Monza. Til leiks gekk hann með sjö stigum færra en Vettel í slagnum um heimsmeistaratitil ökumanna. Frá Monza fer Hamilton hins vegar með þriggja stiga forskot, 238:235. Bottas er þriðji með 197 stig, Ricciardo fjórði með 144 og fimmti Räikkönen með 138. Sjötíu stig eru svo í sjötta mann, Versteppen sem er með 68 stig. 

Mercedes jók sömuleiðis forskot sitt í keppni liðanna, er með 435 stig gegn 373 stigum Ferrari, 212 stigum Red Bull og 113 stigum Force India.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert