Lauda: Bottas áfram hjá Mercedes

Valtteri Bottas verður áfram ökumaður Mercedes á næsta ári, segir stjórnarformaður liðsins, Niki Lauda.

Liðsstjórinn Toto Wolff sagði sömuleiðis í Monza um helgina að það þyrfti ekki mikið hugmyndaflug til að sjá að Bottas yrði áfram hjá liðinu.

Búist er við formlegri tilkynningu einhvern næstu daga um að framlenging samnings Bottas sé gengin í gegn.

„Ég get sagt að hann keppir fyrir okkur á næsta ári,“ sagði Lauda við sjónvarpsstöðina RTL. Toto mun klára það mál og síðan verður stjórnin að leggja blessun sína formlega yfir það.“

Bottas varð í öðru sæti í mark í Monza, næst á eftir liðsfélaga sínum Lewis Hamilton. Var það í þriðja sinn á árinu sem Mercedes vinnur tvöfaldan sigur og var hann sætari vegna þess að vettvangurinn var musteri formúlunnar á Ítalíu, Monza í Ferrarilandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert