Eiga góða möguleika í Singapúr

Fernando Alonso.
Fernando Alonso. AFP

Fernando Alonso segist klæja í fingurgómana fyrir kappaksturinn í Singapúr um komandi helgi. Telur hann möguleika sína á góðum árangri þar mikla. 

Brautareiginleikar eru með þeim hætti í Singapúr að henta þykja McLarenbílnum. Veitir Alonso ekki af góðum árangri þar eftir að hafa fallið úr leik í tveimur síðustu mótum, í Spa og Monza,  vegna bilana í aflrás bílsins og gírkassa.

„Við vissum að við myndum eiga á brattann að sækja í Spa og Monza en þrjú brottföll þar voru virkilega svekkjandi,“ segir  Alonso.

„Við sýndum þó meiri hraða en við höfðum búist við. Nú eru Evrópumótin að baki og nú tekur lokakafli vertíðarinnar við. Það er frábært að hefja hann í Singapúr því brautin þar er ein af þeim sem hentar okkur betur en flestar aðrar. Við ættum að eiga mjög góða möguleika á jákvæðum árangri,“ bætir Alonso við.

Hann segir menn þurfa bíl með góðri rásfestu í hægu beygjunu og sem er uppsettur með miklu vængafli. McLarenbíllinn sé góður í þeim búningi. „Við verðum bara að tryggja að hann endist,“ segir Alonso.  Besti árangur hans í keppni það sem af er vertíðar er sjötta sætið í ungverska kappakstrinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert