Bregðast við mögulegu þjófstarti

Reglum um ræsingu hefur verið breytt til að draga úr möguleikum á þjófstarti, en ótrúlega snöggt viðbragð Valtteri Bottas á Mercedes í austurríska kappakstrinum í sumar olli deilum.

Bottas rauk af stað af ráspól áberandi fyrr en aðrir og virtist um þjófstart að ræða. Röng rannsókn eftirlitsdómara kappakstursins leiddu hins vegar í ljós að hann hafi verið réttu megin við strikið er rásljósin slokknuðu. Viðbragðið hafi mælst 0,201 sekúnda og sögðu dómararnir hann hafa veðjað á hvenær ljósin myndu slokkna og sleppt kúplingunni. Hafi hann hitt svo einstaklega vel á það augnablik.

Bottas ók til sigurs í kappakstrinum en meðal þeirra sem töldu hann hafa brugðið of fljótt við var Sebastian Vettel hjá Ferrari. Neitaði hann að viðurkenna viðbragðstímann sem dómararnir gáfu upp og hélt fast við að Bottas hafi þjófstartað.

Vettel er ástæðan fyrir annarri breytingu á reglum um ræsingu. Héðan í frá geta ökumenn ekki stillt bílum sínum á ská á rásmarkinu eins og Vettel gerði í Kína til að sleppa við bleytupoll rétt fyrir framan rásstað hans. Hættan er nefnilega sú að með því að fara út fyrir rásmarksrammann er sá möguleiki fyrir hendi, að nemar á rásmarkinu nái ekki merkjum frá radarvara bílsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert