Schumacher sagður á förum vestur

Michael Schumacher á skíðum.
Michael Schumacher á skíðum. AFP

Ef marka má fréttir þýskra fjölmiðla er Michael Schumacher á leið til Bandaríkjanna í meðferð vegna áverka sem hann hlaut við fall á skíðum í frönsku Ölpunum 29. desember 2013.

Hermt er að Schumacher fari á spítala sem sérhæfður er í meðferð sjúklinga sem orðið hafa fyrir heilaskaða.

Það var vikuritið Bravo sem fyrst skýrði frá þessum áformum en fjölskylda Schumacher hefur varist allra fregna af heilsu heimsmeistarans fyrrverandi í formúlu-1.

Forstjóri klíníkunnar við spítalann í Dallas þykir gefa til kynna að Schumacher sé á leið þangað því hann segir við blaðið, að ný meðferð stofnunar hans á heilasködduðu fólki hafi reynst vel á fólki með álíka áverka og Schumacher hlaut. Sé þessi meðferð hvergi annars staðar reynd um þessar mundir.

Frá því Schumacher yfirgaf sjúkrahús tæpu ári eftir slysið og þar af sex mánuði í dái hefur hann dvalið á villu sinni við Leman-vatnið í Sviss. Þar hafa sérfræðingar annast hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert