Vandræðalaust hjá Verstappen

Max Verstappen á Red Bull var í þessu að vinna öruggan sigur í Malasíukappakstrinum. Annar varð Lewis Hamitlon á Mercedes og þriðji Daniel Ricciardo hjá Red Bull sem varðist vel þungri sókn Sebastian Vettel á Ferrari á lokahringjunum. 

Verstappen drottnaði í kappakstrinum og ekki voru margir hringir að baki er hann renndi sér fram úr Hamilton sem hóf keppni af ráspól. Það tók lengri tíma fyrir Ricciardo að vinna sig fram úr liðsfélaga Hamiltons, Valtteri Bottas, sem endaði í fimmta sæti. 

Þetta er annar mótssigur Verstappen á ferlinum og hin ágætasta afmælisgjöf en hann varð tvítugur í gær, laugardag. Jómfrúarsigurinn vann hann í Spánarkappakstrinum í Barcelona í fyrra. Hann er fimmti ökumaðurinn til að vinna mótssigur í ár, hinir eru Hamilton, Vettel, Bottas og Ricciardo.

Áhugaverð einvígi áttu sér stað keppnina út í gegn sem settu svip á mótið. Svosem milli liðsfélaganna Lance Stroll og Felipe Massa hjá Williams, Estepan Ocon á Force India og Massa, Fernando Alonsi á McLaren og Kevins Magnussen á Haas, og Carlos Sainz á Toro Rosso og Ocon. Þeir síðastnefndu rákust saman og einnig Magnussen í einvígi við Jolyon Palme á Renault.

Martröð Ferrari

Kappakstursins verður að líkindum fyrst og fremst minnst fyrir mótlæti Ferrari sem jaðraði við martröð fyrir ítalska liðið. Í byrjun tímatökunnar í gær bilaði hverfilblásari á vél Vettels svo hann missti alveg af henni og hóf því keppni í dag með alveg nýjan vélbúnað í 20. og síðasta sæti.

Á leiðinni út á rásmarkið kom í ljós að eitthvað var að rafgeymum í Ferrarifák Kimi Räikkönen. Viðgerð tókst ekki áður en keppnin hófst og féll Räikkönen því úr leik áður en af stað var farið.

Það bætti ögn úr að Vettel ók sem griðungur og vann sig fram úr hverjum bílnum af öðrum allt upp fjórða sæti. Dró hann um tíma mjög á Ricciardo og í nokkra hringi var bilið þeirra undir einni sekúndu. Vantaði Vettel alltaf herslumuninn til að komast fram úr þrátt fyrir nokkrar atlögur sem Ricciardo sá alltaf við og varði því stöðu sína vel. 

Hörmungar Ferrari voru síðan kóróneraðar á innhring í lokin er Vettel og Lance Stroll hjá Williams skullu saman með þeikm afleiðingum að vinstri afturfjöðrun Vettels brotnaði.  Lagðist afturhjólið upp á vélarhlífina.

Dómarar kappakstursins yfirfóru atvikið og komust að þeirri niðurstöðu að hvorugur þeirra Stroll og Vettel bæri alla ábyrgð á atvikinu - beggja sök - og ákváðu því að beita engum refsingum. 

Takmarkaði tjónið

Með hinum öfluga akstri og erfiðleikum Mercedesmanna tókst Vettel að  draga sem mest úr tjóni hans í stigakeppninni  um heimsmeistaratitil ökumanna. Hefur Hamilton 281 stig en Vettel 247. Í þriðja sæti er Bottas með 222, fjórði Ricciardo með 177, fimmti Räikkönen með 138 og sjötti Verstappen með 93.   

Í keppninni um titil bílsmiða jók Mercedes forskot sitt á Ferrari, 503:385. Red Bull er með 270 stig og Force India 133.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert