Vettel fljótastur á fyrstu æfingu

Sebastian Vettel á æfingunni í Suzuka í morgun.
Sebastian Vettel á æfingunni í Suzuka í morgun. AFP

Sebastian Vettel á Ferrari ók hraðast á fyrstu æfingu keppnishelgarinnar í Suzuka í Japan í morgun.

Vettel var hálfri sekúndu fljótari í förum en tíminn sem dugði til ráspóls í Suzuka í fyrra.

Ökumenn Mercedes og Red Bull skiptust framan af á því að setja besta brautartímann en undir lokin lét Vettel til sín taka. 

Carlos Sainz á Toro Rosso flaug út úr hárnálarbeygju hringsins og skall harkalega á öryggisvegg. Snarsnerist billinn á brautarbríkum og þótt hann laskaðist verulega slappp Sainz ómeiddur.

Næsthraðast og 0,2 sekúndum á eftir Vettel ók Lewis Hamilton á Mercedes og Daniel Ricciardo á Red Bull átti þriðja besta hringinn, næstum 0,4 sekúndum á eftir Vettel.

Kimi Räikkönen á Ferrari átti fjórða besta tímann og í sætum fimm  til tíu - í þessari röð - urðu Valtteri Bottas á Mercedes, Max Verstappen á Red Bull, Eseteban Ocon á Toro Rosso,  Nico Hülkenberg, Romain Grosjean á Haas, Stoffel Vandorne á McLaren, sem var næstum tveimur sekúndum lengur með hringinn en Vettel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert