Vettel þarf kraftaverk

Sebastian Vettel veifar áhorfendum í Suzuka á heiðurshring ökumannanna.
Sebastian Vettel veifar áhorfendum í Suzuka á heiðurshring ökumannanna. AFP

Sebastian Vettel þarf á kraftaverki að halda ætli hann sér að leggja Lewis Hamilton að velli í rimmu þeirra um heimsmeistaratitil  ökumanna í formúlu-1 í ár.

Þetta segir Nico Rosberg, núverandi heimsmeistari, sem hætti keppni eftir að hafa nælt í titilinn í fyrra. Hann kveðst viss um það, að Vettel muni ekki gefast upp og láta deigan síga þótt á móti blási.

Vegna hrakfara í síðustu þremur mótum hefur Hamilton náð gríðarlegu forskoti á Vettel í titilslagnum. Munar59 stigum á þeim þegar fjögur mót eru eftir og 100 stig í pottinum.

Í ungverska kappakstrinum í Búdapest var Vettel með 14 stiga forskot á Hamilton en bilið minnkaði í sjö stig í belgíska kappakstrinum. Á heimavelli Ferrari í Monza hafði Hamilton betur og náði þriggja stiga forystu á Vettel. Hann jók hana svo í 28 stig í Singapúr, 34 stig í Malasíu og í 59 stig í Japan.

Rosberg lýsir Vettel sem „baráttujaxli“ sem muni ekki slaka á fyrr en stærðfræðilegir möguleikar á titlinum eru engir. „Ferrarimenn koma alltaf öflugir til baka úr mótlæti. Við Sebastian blasir afar erfitt verkefni. Lewis hefur verið á góðu róli og allt fallið með honum. Sebastian þarf á kraftaverki að halda, en hann er bardagamaður og gefst ekki upp. Það verður áhugavert að sjá hversu lengi baráttan varir,“ segir Rosberg.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert