Hamilton vann og Mercedes tók titilinn

Lewis Hamilton á Mercedes var í þessu að vinna bandaríska kappaksturinn í Austin í Texas og í leiðinni landaði lið hans heimsmeistaratitli bílsmiða fjórða árið í röð. Aðeins þrjú lið önnur hafa áður unnið titil bílsmiða fjögur ár í röð, McLaren, Ferrari og Red  Bull.

 Hamilton hóf keppni af ráspól en tapaði slagnum um fyrstu beygjuna fyrir Sebastian Vettel á Ferrari sem tók fram úr honum á fyrstu metrunum. Liðu ekki margir hringir þar til Hamilton komst fram úr á ný og eftir það stafaði honum engin hætta af Vettel sem naut þess á lokahringjunum að liðsfélagi hans Kimi Räikkönen hleypti honum fram úr sér og upp í annað sætið.

Räikkönen varð svo fyrir því að stíft sækjandi Max Verstappen á Red Bull komst fram úr honum, á nokkuð stórkarlalegan hátt, á alveg undir lok síðasta hrings. Hafnaði hann í þriðja sæti en áhöld voru um hvort hann héldi sætinu þar sem hann fór inn fyrir beygjuna til að komast fram úr.

Mikið var um stöðubaráttu frá upphafi til enda og mikið um sætaskipti. Vettel heldur enn í vonina um heimsmeistaratitil þótt bilið milli þeirra Hamilton hafi aukist um sjö stig í 66 þegar aðeins þrjú mót eru eftir. Er Hamilton með 331 stig en Vettel 265.

Vettel átti að líkindum augnablik dagsins er hann tók fram úr Valtteri Bottas á Mercedes þegar nokkrir hringir voru eftir en Finninn ók augljóslega til að tefja hann í förum svo hann kæmist ekki í tæri við Hamilton. Vatt Vettel sér fram úr með því að fara utanvert í  fyrstu beygju og skjótast efst á brúninni á milli Bottas og Staffels Vandoorne á McLaren sem þeir voru að ná, en hann var þá hring á eftir.

Uppfært kl. 21:00

Verstappen var dæmdur hafa tekið ólöglega fram úr Räikkönen og var kallaður niður af verðlaunapallinum rétt áður en athöfnin þar skyldi hefjast. Dómarar mótsins ákváðu að bæta 5 sekúndum við aksturstíma hans og við það höfðu þeir Räikkönen sætaskipti á ný.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert