Biðst afsökunar á blótsyrðum

Max Verstappen (t.h.) með liðsfélaga sínum Daniel Ricciardo í Mexíkó …
Max Verstappen (t.h.) með liðsfélaga sínum Daniel Ricciardo í Mexíkó en þar verður keppt um helgina í formúlu-1. AFP

Max Verstappen hjá Red Bull hefur beðist afsökunar á tungutaki sínu í framhaldi af því að hann var víttur fyrir ólöglegan framúrakstur í bandaríska kappakstrinum í Austin síðastliðinn sunnudag.

Verstappen tók fram úr  Kimi Räikkönen á Ferrari með því að skera beygjuna og fara inn fyrir brautarmörk með öll fjögur dekk bílsins. Það sögðu dómarar ólögmætan ávinning og bættu refsitíma við keppnistíma hans og sendu hann með því aftur oní fjórða sæti. Tók Räikkönen því við þriðju verðlaunum.  

Í samtölum strax eftir keppni beindi Verstappen spjótum sínum að dómurunum en þó sérstaklega að einum þeirra, Garry Connelly. Kallaði hann „dómarafíflið“ fyrst og síðan mongóla í viðtali við hollenskan miðil.
 
Á blaðamannafundi í Mexíkó, þar sem keppt verður um helgina, viðurkenndi Verstappen að hann hefði getað brúkað annan orðaforða. Baðst hann þó ekki afsökunar þar heldur með pósti á instragram-síðu sinni.
 
„Ég vil biðjast afsökunar á yfirlýsingum mínum sem féllu í hita leiksins. Þau orð sem ég viðhafði voru óviðeigandi en beindust ekki að neinum sérstökum einstaklingi. Ég vildi vissulega engan móðga og vonandi stígum við upp frá þessu og njótum keppni helgarinnar,“ segir á instragram-síðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert