Mercedes og Renault hafa áhyggjur

Svona sér Renault fyrir sér formúlubíl ársins 2027. Í honum …
Svona sér Renault fyrir sér formúlubíl ársins 2027. Í honum verður væntanlega allt önnur vél en í dag. AFP

Fulltrúar bæði Mercedes og Renault hafa látið í ljós efasemdir um vélarnar sem taka við í keppnisbílum formúlu-1 árið 2021, en ýmsar helstu forsendur þeirra hafa verið kynntar liðunum.

Í framhaldi af fundi forsvarsmanna Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) með fulltrúum liðanna í París í vikunni tilkynnti FIA, að áfram yrði notast við 1,6 lítra V6-tvíorkuvél en hún yrði einfaldari, ódýrari og háværari en núverandi keppnisvél. 

Tilgangurinn er að draga úr tilkostnaði keppnisliðanna en núverandi vél kom til skjalanna2014. Frá 2021 verður snúningshraði vélanna að hámarki 3.000 snúningum á mínútu meiri, hverfilblásararnir verða ekki lengur tveir, heldur aðeins einn og þröngar skorður settar við stærð hans og þyngd. Stöðlun við þróun og smíði einstakra vélaríhluta verður aukin til að draga úr þróunarkostnaði og fæla menn frá því að fara út á ystu nöf í vélarhönnuninni.

Annar orkuheimtunarbúnaðurinn, MGU-H, verður lagður af og rafeindastýringar eins í vélum allra liða. Loks verður til áframhaldandi skoðunar að þrengja reglur um bensínnotkun og fjölda tegunda eldsneytis.

Mercedesstjórinn Wolff kveðst ekki sannfærður um ágæti nýju vélanna og tekur fram að enn hafi ekki verið ákveðið að smíða hana á þeim grunni sem birtur hefur verið. Liðin hefðu ekki samþykkt neitt um það á fundinum í París.

„Þeir voru að kynna sýn sína og tillögur um nýjar vélar og við höfum ekki samþykkt þær,“ segir Wolff við breska útvarpið, BBC.  „Gallinn við hugmyndirnar er að hér er um að ræða algjörlega nýja vél sem kallar á nýjar fjárfestingar.“
 
Renaultstjórinn Cyril Abiteboul kveðst efins um að nýir vélarframleiðendur komi til leiks í formúlu-1 á þeim vélarhugmyndum sem kynntar voru, einmitt vegna kostnaðar við þróun þeirra og smíði. „Og það er einmitt okkar vandi líka því við þurfum að fjárfesta á ný, rétt eins og nýr framleiðandi þyrfti. Ég tel að sjálfstæðar vélasmiðjur eins og Ilmor eða Cosworth sjái sér tæpast fært að leggja út í þetta án þess að njóta fjárframlaga frá bílaframleiðanda.“

Abiteboul segir að í raun og veru sé um að ræða alveg nýjar vélar samkvæmt tillögum FIA. Það eitt að fækka hverfilblásurunum og orkuheimtunarbúnaði gjörbreyti forsendum vélanna sem þróa verði frá grunni.

Enn sem komið er hafa hvorki Ferrari né Honda tjáð sig um tillögurnar að 2021-vélunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert