Bottas vann lokapólinn

Valtteri Bottas á Mercedes var í þessu að vinna ráspól kappakstursins í Abu Dhabi sem er lokamót ársins. Annar varð liðsfélagi hans Lewis Hamilton og þriðji Sebastian Vettel á Ferrari.

Þetta er og annað mótið í röð sem Bottas hefur kappakstur fremstur því hann varð einnig hlutskarpastur í tímatökunni í Brasilíu fyrir hálfum mánuði.

Býsna mjótt var á munum milli Bottas og Hamilton í öllum þremur lotum tímatökunnar. Munaði 35 þúsundustu úr sekúndu í þeirri fyrstu Bottas í hag og 0,080 sekúndum í annarri lotu sem Hamilton vann. Í fyrri atlögunni í þriðju lotu reiddi Bottas hátt til höggs með methraða í brautinni og munaði þá 0,172 sekúndum.

Ekki tókst Bottas að bæta sig á fyrstu tveimur brautarköflunum í lokatilrauninni og ók beint inn í bílskúr í stað þess að klára tímahringinn. Á leiðinni þangað fékk hann þær fréttir í talstöðinni að hann hefði þrátt fyrir allt hreppt ráspólinn. Hamilton ógnaði honum verulega í sinni lokatilraun en skrensaði um of í beygjum lokakaflans og missti niður ferðina nægilega mikið til að Bottas hélt fyrsta sætinu.

Eftir sem áður hefja ökumenn Mercedes keppni á morgun af fremstu rásröð og á þeirri næstu verða Sebastian Vettel á Ferrari og Daniel Ricciardo á Red Bull sem komst upp á milli Ferrarimanna í lokatilraun sinni. Kimi Räikkönen varð því fimmti eftir að hafa verið í þriðja til fjórða sæti allt fram á síðustu mínútu.

Max Verstappen á Red Bull varð sjötti, Nico Hülkenberg á Renault sjöundi, Sergio Perez og Esteban Ocon á Force India í áttunda og níunda sæti og tíunda sætið hreppti Felipe Massa á Williams, sem laumaðist fram úr Fernando Alonso á McLaren á síðustu sekúndum annarrar lotu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert