Bottas ósnertanlegur

Valtteri Bottas í forystu rétt eftir ræsingu í Abu dhabi …
Valtteri Bottas í forystu rétt eftir ræsingu í Abu dhabi í dag. AFP

Valtteri Bottas hjá Mercedes mun lengi minnast helgarinnar í Abu Dhabi því eftir að hreppa  ráspólinn í gær vann hann kappaksturinn í dag og átti hraðasta hring í leiðinni. Er þetta þriðji mótssigur hans í formúlu-1.

Bottas hóf keppni af ráspól og hélt forystu alla leið nokkuð örugglega þótt liðsfélaginn Lewis Hamilton væri yfirleitt tiltölulega nærri og ógnandi. En meira varð ekki úr því og meðal annars urðu heimsmeistaranum á tvenn akstursmistök í sókn sinni.

Sebastian Vettel varð þriðji og var einmanna kappaksturinn út í gegn; Mercedesemennirnir of langt á undan og liðsfélagi hans Kimi Räikkönen og Max Verstappen á Red Bull það langt að baki að hann var aldrei í neinni keppni. Verstappen var alltaf rétt rúmlega í skottinu á Räikkönen en komst aldrei nógu nærri til að geta ógnað með tilraun til framúraksturs.

Nico Hülkenberg á Renault varð sjötti og færði liði sínu milljón evrur í verðlaunafé í leiðinni því Renault komst upp fyrir Toro Rosso í stigakeppni liðanna með árangri hans. Felipe Massa hjá Williams kvaddi formúlu-1 með því að hreppa síðasta sætið sem var í boði er hann kom tíundi í mark, lengst af eftir mikla keppni við Fernando Alonso á McLaren sem varð níundi en í sætum átta og níu urðu ökumenn Force India, Sergio Perez og Esteban Ocon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert