Valencia og Inter eiga yfir höfði sér þungar refsingar

David Navarro leikmaður Valencia gefur Nicolas Burdisso einn á kjammann …
David Navarro leikmaður Valencia gefur Nicolas Burdisso einn á kjammann eftir leik Valencia og Inter í gærkvöld. AP

Lið Valencia og Inter Mílanó eiga yfir höfði sér háar fjársektir og að einhverjir leikmenn liðanna verði dæmdir í keppnisbann eftir leik liðanna í Meistaradeildinni í gær. Til fjöldaslagsmála kom á milli leikmanna þegar flautað var til leiksloka á Mestalla vellinum í Valencia þar sem liðin skildu jöfn, 0:0, sem dugði Valencia til að komast áfram í keppninni.

Leikmenn slógust út um víðan völl en lengst gekk David Navarro leikmaður Valencia. Hann hljóp af varamannabekknum og sló til Nicolasar Burdisso með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði. Þá voru stympingar í leikmannagöngum og fyrir utan búningsklefa Valencia þegar æstir leikmenn Inter ætluðu að komast þangað inn og lúskra á Navarro.

Roberto Mancini þjálfari Inter sagðist mjög leiður og vonsvikinn yfir því sem gerðist eftir leikinn.

,,Leikmaður Valencia trylltist þegar hann hljóp inn á völlinn eftir leikinn. Hann sló til Burdisso sem er nefbrotinn eftir höggið. Toldo markvörður okkar varð vitni af þessu og þess vegna reyndi hann að hafa uppi á Narvarro í búningsklefanum en þessi hegðan leikmanna eftir leikinn var ekki sú sem maður vill sjá," sagði Mancini.

UEFA mun rannsaka málið til hlítar næstu dagana og alveg víst er að þessi uppákoma á eftir að draga dilk á eftir sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert