Spánverjar sigruðu Íslendinga 1:0

Grétar Rafn Steinsson í baráttunni við David Villa.
Grétar Rafn Steinsson í baráttunni við David Villa. Reuetrs

Spánn sigraði Ísland, 1:0, í undankeppni EM í knattspyrnu á Mallorca í kvöld. Andrés Iniesta skoraði sigurmark Spánverja á 81. mínútu eftir látlausa sókn þeirra allan síðari hálfleikinn. Spánverjar eru þá komnir með 9 stig eftir fimm leiki en Ísland er með þrjú stig eftir fimm leiki.

Árni Gautur Arason var tvímælalaust besti leikmaður íslenska liðsins í kvöld og hann varði hvað eftir annað mjög vel. Varnarleikur Íslands var mjög góður og segja má að vörnin hafi aðeins opnast illa í þetta eina skipti þegar Iniesta skoraði. Aðstæður á Mallorca voru afar erfiðar en þar hellirigndi mestan hluta leiksins og völlurinn var frá byrjun afar blautur og erfiður yfirferðar.

Næsti leikur Íslands er gegn Liechtenstein á heimavelli 2. júní en lið Liechtenstein kom mjög á óvart í kvöld með því að sigra Lettland, 1:0. Þá unnu Norður-Írar óvæntan sigur á Svíum, 2:1, með tveimur mörkum frá David Healy, og eru komnir í efsta sætið í F-riðli með 13 stig en Svíar eru með 12, Spánverjar 9, Danir 7, Lettar 3, Íslendingar 3 og Liechtensteinar 3 stig.

Leiknum var lýst beint hér á mbl.is og lýsingin fer hér á eftir:

90+3 Flautað til leiksloka, Spánverjar sigra 1:0.

89. Leikurinn er að fjara út. Spánverjar hafa hægt mjög á leiknum eftir markið og íslensku leikmennirnir ná ekki að pressa þá nægilega mikið til að ógna þeim. Þremur mínútum er bætt við leiktímann.

83. Arnar Þór Viðarsson fer af velli og Hannes Þ. Sigurðsson kemur í hans stað.

81. 1:0. Íslenska vörnin opnast loksins þegar David Villa sendir inní vítateiginn vinstra megin þar sem Iniesta kemst einn gegn Árna Gauti og sendir boltann í markhornið nær.

80. Xabi Alonso með skot rétt utan vítateigs en yfir íslenska markið.

78. Andres Iniesta með hörkuskot frá vítateig, Árni Gautur ver enn eina ferðina. Silva fær boltann og skorar en dæmd er aukaspyrna fyrir brot á Árna. Albelda fer af velli í kjölfarið og Xabi Alonso kemur inná. 77. David Villa með hættulegt skot frá vítateig en í Stefán Gíslason og í horn.

73. Emil Hallfreðsson fer af velli og Indriði Sigurðsson kemur í hans stað.

72. Iniesta með þrumuskot rétt utan vítateigs eftir mikla og þunga sókn Spánverja, með jörðinni, en Árni Gautur ver af miklu öryggi.

66. David Villa með aukaspyrnu á hættulegum stað, rétt utan vinstra vítateigshorns. Arnar Þór Viðarsson les skotið og hreinsar í burtu úr miðjum vítateig.

65. Angulo með hörkuskot rétt utan vítateigs en Árni Gautur ver vel í horn. Eftir hornspyrnuna nær Iniesta góðu skoti frá vítateig en Árni er áfram vel með á nótunum og ver vel niðri í markhorninu.

63. Puyol hirðir boltann af Eiði Smára rétt utan vítateigs, sleppur innfyrir vörnina en missir boltann frá sér og Árni Gautur gómar hann örugglega.

62. David Villa reynir skot af 25 metra færi en langt framhjá markinu.

61. Fernando Torres með skot en rétt framhjá íslenska markinu. Það er farið að hellirigna á ný en í hálfleik hafði stytt upp.

60. Ramos reynir skot af 20 metra færi en hátt yfir og framhjá íslenska markinu.

58. Torres dettur aftur í íslenska vítateignum en franski dómarinn hristir höfuðið og dæmir markspyrnu. Hárrétt.

56. Veigar Páll Gunnarsson fer af velli og Stefán Gíslason kemur í hans stað.

54. Carles Puyol með skalla að marki eftir hornspyrnu en talsvert framhjá markinu.

52. Angulo með skot af 20 metra færi eftir langa sókn Spánverja en framhjá íslenska markinu.

49. David Villa með lúmskt skot með jörðu af 20 metra færi, Árni Gautur slær boltann í horn. Látlaus sókn Spánverja og mark liggur í loftinu.

48. Hættuleg sókn Íslands, þrír gegn þremur. Veigar Páll nýtir ekki gott færi til að senda á Emil Hallfreðsson í dauðafæri en sendir fyrir markið þar sem varnarmaður nær að skalla boltann til baka á markvörð sinn.

47. David Villa með hörkuskot og Árni Gautur ver vel í horn.

46. Torres fellur í vítateig Spánar eftir návígi við Gunnar Þór Gunnarsson. Heimamenn vilja fá vítaspyrnu og gætu haft eitthvað til síns máls.

46. Joan Capdevila fer af velli, Miguel Angulo kemur í hans stað.

Hálfleikur. Staðan er 0:0. Spánverjar hafa gert harða hríð að marki Íslands á köflum en íslenska vörnin hefur verið samstillt og fá færi gefið á sér og Árni Gautur hefur í þrígang varið mjög vel. Ísland átti þrjú ágæt markskot í fyrri hálfleiknum, Casillas varði eitt, aukaspyrnu frá Emil Hallfreðssyni, og þeir Emil og Ólafur Örn Bjarnason áttu báðir skot frá vítateigslínu en rétt framhjá spænska markinu.

45+1 David Villa með skot frá vítateig eftir hornspyrnu, boltinn breytir stefnu af varnarmenni og stefnir í markhornið en Árni Gautur kastar sér og ver á glæsilegan hátt.

45. Tveimur mínútum bætt við leiktímann.

43. Xavi með skot frá vítateig, Arnar Þór Viðarsson kemst fyrir skotið og boltinn fer í horn. Fernando Torres kemur inná fyrir Morientes.

38. Silva með fyrirgjöf frá vinstri, boltinn fer af Ólafi Erni Bjarnasyni og skrúfast innað markinu. Árni Gautur nær að bjarga á snilldarlegan hátt í tvígang, ver fyrst glæsilega og nær síðan að slá boltann frá. Fernando Morientes datt illa þegar hann reyndi að ná til boltans, flækti sig í netinu, datt á öxlina og er borinn af velli.

36. Emil tekur aukaspyrnu af 30 metra færi eftir að Eiður Smári er felldur. Ágætt skot útvið stöng en Casillas ver af öryggi.

30. Xavi með skot frá vítateig, en í íslenskan varnarmann og horn. Sergio Ramos með skalla eftir hornspyrnuna en langt framhjá markinu.

28. Andrés Iniesta með skot af 25 metra færi en hátt yfir íslenska markið.

26. Fyrsta hornspyrna Íslands, Emil sendir frá vinstri, Spánverjar skalla frá, Emil sendir aftur fyrir markið frá vinstri, boltinn hrekkur út á vítateigslínu þar sem Ólafur Örn Bjarnason tekur við honum og á ágætt skot en rétt framhjá stönginni, niðri hægra megin.

21. David Silva með hörkuskot utarlega úr vítateignum, vinstra megin, en Árni Gautur ver vel.

18. David Villa með fyrirgjöf frá hægri kanti, boltinn sveigir ískyggilega innað markinu en í þverslána og yfir.

13. Puyol liggur öðru sinni, nú eftir hressilega tæklingu Brynjars Björns Gunnarssonar á vítateigslínu Spánverja, en franski dómarinn lætur sér enn nægja að gefa íslensku leikmönnunum tiltal.

8. Íslensku leikmennirnir hafa látið heldur betur finna fyrir sér. Með hálfrar mínútu millibil lágu Puyol og Silva á vellinum eftir hörkutæklingar Grétars Rafns Steinssonar og Kristjáns Arnar Sigurðssonar.

6. David Villa með skot úr miðjum vítateig eftir fyrirgjöf frá vinstri en beint á Árna Gaut Arason markvörð Íslands.

2. Emil Hallfreðsson með fyrsta marktækifærið í leiknum eftir 90 sekúndna leik. Hann reynir gott skot frá vítateig en rétt framhjá.

Lið Íslands: Árni Gautur Arason - Kristján Örn Sigurðsson, Ívar Ingimarsson, Ólafur Örn Bjarnason, Gunnar Þór Gunnarsson - Grétar Rafn Steinsson, Brynjar Björn Gunnarsson, Arnar Þór Viðarsson, Emil Hallfreðsson - Eiður Smári Guðjohnsen, Veigar Páll Gunnarsson.

Það hellirigndi á Mallorca í kvöld og vistin í stúkunni …
Það hellirigndi á Mallorca í kvöld og vistin í stúkunni á leikvanginum var heldur vot þar sem leikur Íslands og Spánar fór fram. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert