Eyjólfur: „Ég á mikið verk óunnið með þetta lið“

Eyjólfur Sverrisson.
Eyjólfur Sverrisson. Eyþór Árnason

„Við töpuðum þessum leik á 11 mínútum þar sem við fengum fjögur mörk á okkur en úrslitin eru vissulega gríðarleg vonbrigði,“ sagði Eyjólfur Sverrisson þjálfari íslenska landsliðsins í sjónvarpsviðtali eftir 5:0-tapleik liðsins gegn Svíum í undankeppni Evrópumótsins í kvöld. Þjálfarinn hefur ekki hug á því að segja af sér þrátt fyrir slæmt gengi liðsins en liðið er með 4 stig eftir 7 leiki. Lettar eru með 3 stig í sjöunda og neðsta sæti F-riðils.

„Það er mjög svekkjandi að fá tvö mörk á okkur eftir hornspyrnur. Ungu strákarnir stóðu sig nokkuð vel og ég treysti þeim alveg í þetta verkefni. Það er mikið eftir af leikjum í riðlinum og ég hef ekki íhugað að segja af mér. Þetta er okkar 9. leikur og þetta er eins og undirbúningstímabil hjá okkur. Við erum að leita að réttri blöndu af leikmönnum í þetta. Það er mikil endurnýjun í þessu liði og ég tel mig eiga mikið verk óunnið með þetta lið. Það er ekki spurning að ég get snúið við þeirri stöðu sem liðið er í núna“ sagði Eyjólfur m.a.

Geir styður við bakið á þjálfaranum

Geir Þorsteinsson formaður KSÍ var spurður að því hvort Eyjólfur nyti trausts hjá stjórn KSÍ og sagði formaðurinn að engar breytingar væru á döfinni. „Eyjólfur er rétti maðurinn í þetta starf og hann nýtur stuðnings stjórnar KSÍ,“ sagði Geir m.a. í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert