Ítalskur þjálfari í bann fyrir að sparka í rass kollega síns

Baldini býr sig undir sparkið afdrifaríka.
Baldini býr sig undir sparkið afdrifaríka. AP

Silvio Baldini þjálfari ítalska knattspyrnuliðsins Catania hefur verið dæmdur í eins mánaðar bann og sektaður um 15.000 evrur, rúmlega 1,3 milljónir króna, fyrir að sparka í afturenda Domenico Di Carlo, þjálfara Parma, á meðan leik liðanna stóð síðastliðinn sunnudag.

Baldini, sem þjálfaði Parma fyrir þremur árum, mun því ekki stýra Catania í næstu fimm leikjum, en liðið leikur í efstu deild á Ítalíu. Baldini sagðist sjá eftir athæfi sínu en kvaðst ekki vilja biðja Di Carlo afsökunar. „Ég vil biðja alla aðra afsökunar, þar á meðal stuðningsmenn Parma, en ekki hann [Di Carlo]. Hann ögraði mér,“ sagði Baldini.

Atvikið átti sér stað á 85. mínútu leiksins, þegar staðan var 2:2, og var Baldini tafarlaust sendur upp í stúku af dómara leiksins. Fleiri mörk voru ekki skoruð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert