Fjölnir úr 1. deild í bikarúrslitin gegn FH

Þórður Ingason markvörður Fjölnis fagnar sigrinum í leikslok.
Þórður Ingason markvörður Fjölnis fagnar sigrinum í leikslok. Golli

Fjölnir, sem leikur í 1. deild, sigraði Fylki, 2:1, í framlengdum leik í undanúrslitum bikarkeppni KSÍ, VISA-bikars karla, á Laugardalsvellinum í kvöld. Fylkir komst yfir með marki Alberts Ingasonar á 43. mínútu, Gunnar Már Guðmundsson jafnaði fyrir Fjölni úr vítaspyrnu á 55. mínútu, og þegar 8 mínútur voru eftir af framlengingu skoraði Atli Viðar Björnsson sigurmarkið fyrir Grafarvogsliðið sem mætir FH í úrslitaleik á Laugardalsvellinum 6. október.

Fylgst var með leiknum í textalýsingu hér á mbl.is.

120+2 Þung pressa Fylkis skilar engu, Fjölnir er kominn í bikarúrslitin!

120. Tómas Leifsson sleppur einn innfyrir vörn Fylkis en Fjalar ver frá honum úr dauðafæri.

118. Fjölnismenn eru manni færri á lokakaflanum. Heimir Snær Guðmundsson er utan vallar þar sem hlúð er að honum en allar skiptingar eru búnar.

112. 1:2. Atli Viðar Björnsson fær langa sendingu innfyrir vörn Fylkis, stingur sér inní vítateiginn hægra megin og rennir boltanum í markhornið fjær, stöngin inn! Fjölnir er á leið í úrslitaleik bikarkeppninnar.

107. Valur Fannar Gíslason úr Fylki fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Sigmundi Pétri Ástþórssyni.

106. Peter Gravesen í góðu færi rétt utan markteigs Fjölnis en nær ekki föstu skoti og Þórður Ingason ver vel.

106. Seinni hálfleikur framlengingar hafinn, staðan er enn 1:1. Fjölnir leikur undan vindi og rigningu síðustu 15 mínúturnar.

103. Skipting hjá Fjölni. Ólafur Páll Johnson kemur fyrir Gunnar Má Guðmundsson.

102. Sigmundur Pétur Ástþórsson úr Fjölni fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Hauki Ingi Guðnasyni.

98. Ómar Hákonarson með skot að marki Fylkis, rétt innan vítateigs, en beint á Fjalar Þorgeirsson markvörð.

91. Framlengingin hafin. Haukur Ingi Guðnason er kominn inná hjá Fylki fyrir Andrés Má Jóhannesson.

90+4 Staðan er 1:1 eftir jafna baráttu og færi á báða bóga og framlengt verður í rigningunni í Laugardalnum. Albert Ingason kom Fylki yfir á 43. mínútu en Gunnar Már Guðmundsson jafnaði fyrir Fjölni úr vítaspyrnu á 55. mínútu.

90+2 Peter Gravesen reynir fast skot að marki Fjölnis af 30 m færi en Þórður ver án vandræða.

82. Andrés Jóhannesson með hættulegt skot hægra megin úr vítateignum og Þórður Ingason markvörður Fjölnis ver glæsilega í horn.

81. Skipting hjá Fylki. Páll Einarsson kemur inná fyrir Christian Christiansen.

79. Skipting hjá Fjölni. Sigmundur P. Ástþórsson kemur inná fyrir Davíð Þór Rúnarsson.

79. Fylkismenn bruna upp eftir dauðafæri Fjölnismanna og Albert Ingason á þrumuskot í þverslána á marki Fjölnis.

78. Fjalar Þorgeirsson ver glæsilega skalla Ómars Hákonarsonar úr dauðafæri af markteig, eftir fyrirgjöf frá hægri.

76. Gunnar Valur Gunnarsson úr Fjölni fær gula spjaldið fyrir að kasta boltanum í burtu eftir að dæmt var á hann.

73. Skipting hjá Fjölni. Ómar Hákonarson kemur inná fyrir Pétur Georg Markan.

71. Skipting hjá Fylki. Arnar Þór Úlfarsson kemur inná fyrir Ólaf Stígsson.

67. Atli Viðar Björnsson með skot rétt yfir þverslá Fylkismarksins, frá vítateig, eftir fallega sókn Fjölnis og sendingu Tómasar Leifssonar.

64. Gunnar Már Guðmundsson úr Fjölni fær gula spjaldið fyrir brot.

61. Þórður Ingason markvörður Fjölnis ver skalla frá David Hannah á glæsilegan hátt, eftir hornspyrnu, en boltinn stefndi í markhornið niðri, hægra megin.

58. Ásgeir Aron Ásgeirsson með fast skot úr aukaspyrnu að marki Fylkis af 25 m færi en Fjalar Þorgeirsson ver örugglega.

55. 1:1. Dæmd vítaspyrna á Fylkismenn eftir skot í höndina á Kristjáni Valdimarssyni. Gunnar Már Guðmundsson tekur spyrnuna og jafnar metin með föstu skoti.

45+3 Flautað til hálfleiks og Fylkir er yfir, 1:0. Fjölnir hefur samt verið sterkari aðilinn í heildina og m.a. fengið 10 hornspyrnur gegn 5, auk fleiri marktækifæra.

44. Heimir Snær Guðmundsson úr Fjölni fær gula spjaldið fyrir brot.

43. 1:0. Albert Ingason sleppur inní vítateig Fjölnis, vinstra megin, og skorar úr þröngu færi, af yfirvegun.

36. Pétur Georg Markan kemst í gott færi í vítateig Fylkis eftir mistök Árbæinga á miðjum eigin vallarhelmingi en skýtur yfir markið.

34. Ragnar H. Gunnarsson með aukaspyrnu af um 45 m færi að marki Fylkis. Boltinn lendir í teignum og spýtist að markhorninu hægra megin og Fjalar ver vel í horn.

32. Albert Ingason með góða rispu af vinstri kanti og inná vítateigslínu, og með fast skot þaðan en Þórður Ingason ver örugglega.

28. Tómas Leifsson með hörkuskot að marki Fylkis af 25 m færi og Fjalar Þorgeirsson var vel í horn.

24. Magnús Ingi Einarsson úr Fjölni fær gula spjaldið fyrir brot á Peter Gravesen.

23. Fyrsta hættulega færi Fylkis, Ólafur Stígsson með skot rétt innan vítateigs en Þórður Ingason ver af öryggi.

12. Hættuleg hornspyrna Fjölnismanna sem Tómas Leifsson tekur frá hægri. Boltinn sveigir undan vindi innað marklínu en Fjalar nær að slá hann yfir markið. Fjölnir leikur undan nokkrum vindi og rigningu og hfur sótt mun meira það sem af er leiknum og fengið nokkrar hornspyrnur.

4. Fjölnismenn klúðra sannkölluðu dauðafæri. Davíð Þór Rúnarsson átti glæsilegan sprett í gegnum vörn Fylkis og renndi boltanum á Tómas Leifsson sem var einn í dauðafæri gegn Fjalari markverði en hitti ekki markið.

Lið Fylkis: Fjalar Þorgeirsson, Andrés Már Jóhannesson, Kristján Valdimarsson, David Hannah, Víðir Leifsson, Ólafur Stígsson, Valur Fannar Gíslason, Halldór Hilmisson, Peter Gravesen, Albert Ingason, Christian Christiansen.

Lið Fjölnis: Þórður Ingason, Gunnar Valur Gunnarsson, Magnús Ingi Einarsson, Heimir Guðmundsson, Ásgeir Aron Ásgeirsson, Ragnar H. Gunnarsson, Davíð Þór Rúnarsson, Gunnar Már Guðmundsson, Tómas Leifsson, Atli Viðar Björnsson, Pétur Georg Markan.

Fjölnismenn, sem leika í 1. deild, eru komnir í undanúrslit bikarkeppninnar í fyrsta skipti. Fylkismenn eru öllu reyndari en þeir urðu bikarmeistarar bæði 2001 og 2002.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert