Ósigur gegn Lettum, 2:4, en Eiður sló markametið

Boltinn liggur í marki Íslands eftir skalla Oskars Klava, 1:1.
Boltinn liggur í marki Íslands eftir skalla Oskars Klava, 1:1. Golli

Ísland tapaði fyrir Lettlandi, 2:4, í undankeppni EM í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í dag. Eiður Smári Guðjohnsen skoraði bæði mörk Íslands og setti þar með nýtt markamet, hefur skorað 19 mörk fyrir Ísland en Ríkharður Jónsson gerði 17 mörk á sínum tíma.

Eftir Víði Sigurðsson
vs@mbl.is

Með þessu tapi datt Ísland niður í sjötta og næstsíðasta sætið í riðlinum með 8 stig eftir 10 leiki. Lettar náðu að fara uppí fimmta sætið með 9 stig eftir 9 leiki en Liechtenstein situr á botninum með 4 stig eftir 9 leiki. Ísland leikur við Liechtenstein á útivelli á miðvikudag og við Dani á útivelli 21. nóvember.

Ísland fékk óskabyrjun því strax á 4. mínútu skoraði Eiður Smári Guðjohnsen eftir fallega sókn og fyrirgjöf Hjálmars Jónssonar frá vinstri. En eftir miðjan fyrri hálfleik hrundi hreinlega leikur íslenska liðsins og það fékk á sig þrjú mörk á 10 mínútna kafla. Oskars Klava jafnaði, 1:1, á 27. mínútu, Jurijs Laizans skoraði, 1:2, á 31. mínútu og Maris Verpakovskis, 1:3, á 37. mínútu.

Seinni hálfleikur byrjaði hræðilega því eftir aðeins 19 sekúndur skoraði Verpakovskis sitt annað mark, 1:4, og leikurinn nánast tapaður. En íslenska liðið komst samt vel frá seinni hálfleiknum, Eiður Smári minnkaði muninn í 2:4 með fallegu skoti strax á 53. mínútu og Ísland sótti linnulítið það sem eftir var en náði ekki að skora þriðja markið sem hefði hleypt spennu í leikinn.

Seinni hálfleikur var bráðskemmtilegur á að horfa, opinn og líflegur leikur, en þá var íslenska liðið búið að gera sér of erfitt fyrir með hræðilegum varnarleik. Leikmenn lögðu sig fram og börðust af krafti en það dugði ekki til, mistökin voru of mörg og dýrkeypt að þessu sinni.

Lettar hafa nú skorað 9 mörk í keppninni, átta þeirra gegn Íslendingum og það níunda var sjálfsmark, sigurmark gegn Norður-Írum.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is og fer hún hér á eftir:

90+1 Jurijs Ziagajevs kemur inná fyrir Visnakovs.

89. Áhorfendur á Laugardalsvelli eru 5.865.

88. Ármann Smári Björnsson kemur inná fyrir Kristján Örn Sigurðsson.

86. Brynjar Björn spilar sig í gegnum vörn Letta af miklu harðfylgi og tvo þríhyrninga í fjölmennum vítateignum. Vanins nær til boltans á undan honum, Brynjar Björn fylgir fast á eftir og fær gula spjaldið fyrir vikið.

85. Helgi Sigurðsson fær sendingu inní vítateiginn hægra megin frá Jóhannesi Karli, sem hefur átt frábæran síðari hálfleik, en Vanins bjargar með góðu úthlaupi.

84. Visnakovs kemst í skotfæri við vítateigslínu eftir laglegan sprett og á hörkuskot rétt framhjá stönginni hægra megin.

80. Svíar eru komnir í 2:0 gegn Liechtenstein á útivelli í riðli Íslands, með mörkum frá Ljungberg og Wilhelmsson. Þar eru 40 mínútur liðnar.

78. Marians Pahars kemur inná hjá Lettum fyrir Maris Verpakovskis.

77. Eiður Smári fær boltann í góðu færi við vítapunkt en nær ekki að snúa sér með boltann og ná skoti. Brynjar Björn var í góðu færi við hlið hans.

73. Snögg sókn Letta gegn fáliðaðri vörn Íslands, Visnakovs fær boltann inní vítateiginn hægra megin og þrumar en rétt framhjá markvinklinum hægra megin.

72. Eiður Smári með aukaspyrnu af 25 m færi, aðeins til hægri, og gott skot en boltinn strýkst yfir þverslána.

69. Hætta við mark Íslands, henni er bægt frá en boltinn hrekkur út þar sem Jurijs Laizans á skot af 25 m færi en nokkuð framhjá markinu.

66. Brynjar Björn með mikinn þrumufleyg að marki Letta af 18 m færi eftir góða rispu og sendingu Emils. Vanins ver á glæsilegan hátt í horn.

65. Helgi Sigurðsson kemur inná fyrir Gunnar Heiðar Þorvaldsson.

60. Jurijs Laizans reynir fast skot að marki Íslands af 25 m færi en framhjá.

59. Vits Rimkus kemur inná fyrir Girts Karlsons hjá Lettum. Rimkus er reyndur og á 67 landsleiki að baki.

58. Eiður Smári fær boltann frá Emil við vítateigslínu, leikur til hliðar og á fast skot en framhjá marki Letta.

55. Jóhannes Karl með þrumuskot af 25 m færi sem Vanins ver vel í horn. Eftir hornspyrnuna er Kristján Örn í góðu færi rétt utan markteigs en skýtur í samherja og framhjá. Íslenska liðið hefur tekið heldur betur við sér eftir mark Eiðs og sækir af miklum móð.

52. 2:4. Eiður Smári Guðjohnsen fær boltann yst í vítateig Letta, vinstra megin, frá Emil Hallfreðssyni, leikur til hliðar og þrumar boltanum glæsilega í markhornið fjær.

51. Brynjar Björn kemst inní vítateiginn, hægra megin, eftir samspil við Gunnar Heiðar. Varnarmaður kemst fyrir skot hans. Hornspyrna, og Ívar Ingimarsson skallar yfir mark Letta.

50. Jóhannes Karl Guðjónsson reynir skot að marki Letta af 25 m færi en langt framhjá.

48. Kristján Örn Sigurðsson fær gula spjaldið fyrir brot.

46. 1:4. Hroðaleg byrjun á síðari hálfleik. Saklaus fyrirgjöf fyrir mark Íslands, Kristján Örn Sigurðsson skallar boltann, ekki undir pressu, beint á Maris Verpakovskis sem afgreiðir hann beint í markhornið niðri vinstra megin. Aðeins 19 sekúndur liðnar af hálfleiknum. Hrikalegur skellur í uppsiglingu.

46. Síðari hálfleikurinn er hafinn, Ísland með óbreytt lið.

45+1 Hálfleikur, staðan 1:3, Lettum í hag. Eftir góða byrjun íslenska liðsins og mark frá Eiði Smára Guðjohnsen þar sem langþráð markamet féll, náðu Lettar völdum á vellinum. Þeir skoruðu þrívegis á 10 mínútum og eru því með góða stöðu í hálfleik. Þeir hafa nú skorað 7 mörk gegn Íslandi í keppninni, í einum og hálfum hálfleik.

45. Brynjar Björn með hörkuskot að marki Letta af 25 m færi, útvið stöng, og Vanins nær naumlega að slá boltann í horn. Eftir hornspyrnu Jóhannesar Karls skallar Kári Árnason boltann yfir mark Letta.

44. Ívar með skalla að marki Letta eftir hornspyrnu Emils en framhjá stönginni vinstra megin.

42. Jurijs Laizans fær nægan tíma til að leggja boltann fyrir sig utan vítateigs og á hættulegt skot af 20 m færi en rétt framhjá stöng.

39. Gunnar Heiðar kemst innfyrir vörn Letta, hægra megin í vítateignum, eftir laglegt spil við Eið Smára. Hann á skot en Vanins ver vel í horn.

37. 1:3. Þriðja mark Letta og enn eftir uppstillt atriði. Íslenska vörnin kom boltanum ekki í burtu og hann hrökk til Maris Verpakovskis á markteignum og hann þrumaði boltanum nánast óáreittur í markið.

36. Vitalis Astafjevs, fyrirliði Letta, lætur vaða að marki Íslands af 30 m færi en rétt yfir.

31. 1:2 Lettar ná forystu með öðru ódýru marki. Jurijs Laizans tekur aukaspyrnu rétt utan við vinstra vítateigshornið og sendir boltann beint í markhornið nær. Þetta verður að skrifast á reikning Árna Gauts.

27. 1:1. Oskars Klava jafnar fyrir Letta með skalla eftir hornspyrnu frá hægri. Einfalt mark og íslenska vörnin gerði sig seka um að sofa á verðinum.

25. Grétar Rafn fer af velli, hefur verið haltrandi síðan hann meiddist á 19. mínútu, og Kári Árnason kemur í hans stað.

24. Jóhannes Karl Guðjónsson með þrumuskot á mark Letta úr aukaspyrnu rétt utan vítateigshornsins vinstra megin. Vanins slær boltann yfir, í horn. Emil tekur hornspyrnuna og Ívar Ingimarsson skallar framhjá úr ágætu færi.

22. Maris Verpakovskis fær gula spjaldið fyrir að slá til boltans þegar hann náði ekki til hans með skalla eftir fyrirgjöf fyrir íslenska markið frá hægri.

21. Eiður Smári fær boltann á vítateigslínu eftir fallega rispu Emils vinstra megin og á skot en Vanins ver örugglega.

19. Kaspars Gorkss tæklar Grétar Rafn all svakalega við hornfánann hægra megin. Hann fær aðeins tiltal hjá Dean dómara en Grétar Rafn liggur eftir og þarf aðhlynningu utan vallar.

14. Lettar frá tvöfalt dauðafæri og með ólíkindum að þeir skuli ekki jafna. Girts Karlsons kemst einn gegn Árna Gauti sem ver glæsilega. Boltinn hrekkur til hliðar og Verpakovskis fær hann þar fyrir opnu marki, í þröngu færi, en skýtur í stöng og útaf!!!

14. Maris Verpakovskis kastar sér fram og skallar glæsilega að marki Íslands eftir fyrirgjöf frá hægri. Árni Gautur sýnir ekki síðri tilþrif og ver í horn.

12. Kaspars Gorkss, leikmaður Blackpool, skallar yfir mark Íslands eftir hornspyrnu frá hægri.

10. Emil Hallfreðsson með stórhættulega sendingu innað markteig Letta þar sem Vanins markvörður gómar boltann naumlega á undan Gunnari Heiðari Þorvaldssyni.

6. Deniss Ivanovs með skalla úr miðjum vítateig Íslands eftir aukaspyrnu, fast en beint á Árna Gaut Arason sem ver af öryggi.

4. 1:0. Glæsileg sókn Íslands. Gunnar Heiðar Þorvaldsson brunar upp miðjan völlinn og sendir út til vinstri á Emil Hallfreðsson. Hann rennir boltanum áfram inní vítateiginn vinstra megin á Hjálmar Jónsson, sem á hárnákvæma sendingu inná markteig þar sem Eiður Smári Guðjohnsen afgreiðir boltann viðstöðulaust í netið. Átjánda mark Eiðs fyrir A-landslið Íslands og þar með er markamet Ríkharðs Jónssonar loks fallið.

1. Fyrsta færið eftir aðeins 20 sekúndur. Aleksejs Visnakovs veður upp miðjuna og skýtur af 20 m færi en rétt yfir mark Íslands.

1. Leikurinn er hafinn.

16:00: Brynjar Björn Gunnarsson og Jóhannes Karl Guðjónsson koma inná miðjuna hjá Íslandi fyrir þá Arnar Þór Viðarsson og Kára Árnason. Eiður Smári Guðjohnsen er fremstur á miðjunni, fyrir Ármann Smára Björnsson, og Hjálmar Jónsson er vinstri bakvörður fyrir Hermann Hreiðarsson.

15:55: Lið Íslands og Lettlands ganga út á völlinn. Aðsóknin virðist ekki góð í dag og stórir hlutar áhorfendapallanna eru auðir.

15:46: Mike Dean, hinn kunni enski dómari, dæmir í dag. James Devine og Michael Mullarkey eru aðstoðardómararar og varadómari er annar úr ensku úrvalsdeildinni, Mark Clattenburg.

15.30: Langreyndasti leikmaður vallarins í dag er fyrirliði Letta, Vitalis Astafjevs. Hann er 36 ára gamall og á hvorki meira né minna en 136 landsleiki að baki og hefur skorað í þeim 13 mörk. Astafjevs, sem er miðjumaður og leikur með Skonto Riga, var fyrirliði Letta þegar þeir komust svo óvænt í úrslitakeppni EM árið 2004.

15:26: Það viðrar ágætlega til knattspyrnu í Laugardalnum í dag. Sól og nær heiður himinn, og dálítil gola. Tíu stiga hiti, samkvæmt mælinum á vallarklukkunni. Völlurinn lítur vel út en er eflaust ágætlega blautur eftir rigningartíðina undanfarið. Bæði liðin eru komin út til að hita upp.

15:19: Einn kunnasti knattspyrnumaður Letta, Marians Pahars, er á varamannabekknum. Hann lék um skeið með Southampton í ensku úrvalsdeildinni en spilar nú með Famagusta á Kýpur. Pahars hefur leikið 71 landsleik og skorað 15 mörk.

15:16. Byrjunarlið Letta er klárt. Flestir leikmanna þeirra spila í heimalandinu, nema Kaspars Gorkss (nr.13) sem leikur með Blackpool í Englandi, Maris Verpakovskis (9) sem leikur með Hajduk Split í Króatíu og Jurijs Laizans (5) sem leikur með Kuban í Rússlandi. Aðrir í byrjunarliðinu eru Andris Vanins, Vitalis Astafjevs fyrirliði, Dzintars Zirnis, Deniss Ivanovs, Genadijs Solonicins, Aleksejs Visnakovs, Oskars Klava og Girts Karlsons.

14.47: Eiður Smári Guðjohnsen fær enn eitt tækifærið í dag til þess að slá markamet A-landsliðsins. Hann jafnaði það gegn Norður-Írum í Belfast í september 2006 þegar hann gerði sitt 17. mark, jafnt og Ríkharður Jónsson, en hefur síðan ekki náð að skora í 6 landsleikjum sem hann hefur spilað.

14.44: Ívar Ingimarsson, Kristján Örn Sigurðsson, Grétar Rafn Steinsson og Emil Hallfreðsson eru allir í byrjunarliði Íslands í dag. Þeir hafa þar með spilað alla 7 landsleiki Íslands í ár, einir leikmanna, og ávallt í byrjunarliði, nema Kristján tvisvar sem varamaður. Árni Gautur Arason kemur næstur en þetta er hans sjötti landsleikur í ár.

 Tveir aðrir leikir eru í riðlinum í dag, Liechtenstein - Svíþjóð kl. 17 og Danmörk - Spánn kl. 18. Staðan er þessi:

Svíþjóð            8   19
Spánn             9   19
Norður-Írland   9  16
Danmörk          8   14
Ísland              9     8
Lettland           8     6
Liechtenstein   9     4

 Lið Íslands: Árni Gautur Arason - Kristján Örn Sigurðsson, Ívar Ingimarsson, Ragnar Sigurðsson, Hjálmar Jónsson - Grétar Rafn Steinsson, Brynjar Björn Gunnarsson, Jóhannes Karl Guðjónsson, Emil Hallfreðsson, Eiður Smári Guðjohnsen - Gunnar Heiðar Þorvaldsson.
Varamenn: Daði Lárusson, Indriði Sigurðsson, Kári Árnason, Arnar Þór Viðarsson, Helgi Sigurðsson, Ármann Smári Björnsson og Ólafur Örn Bjarnason.
Þeir sem hvíla eru: Veigar Páll Gunnarsson, Ólafur Ingi Skúlason og Ásgeir Gunnar Ásgeirsson. Hermann Hreiðarsson er í leikbanni.

Eiður Smári Guðjohnsen skoraði á 4. og 52. mínútu og …
Eiður Smári Guðjohnsen skoraði á 4. og 52. mínútu og markametið er hans. Árni Torfason
Grétar Rafn Steinsson liggur meiddur. Hann þurfti að fara af …
Grétar Rafn Steinsson liggur meiddur. Hann þurfti að fara af velli um miðjan fyrri hálfleik. Golli
Íslensku leikmennirnir daprir í bragði eftir að hafa fengið á …
Íslensku leikmennirnir daprir í bragði eftir að hafa fengið á sig annað markið. Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert