Eiður Smári: Þurfum að líta í eigin barm

Eiður Smári Guðjohnsen náði ekki að skora frekar en aðrir …
Eiður Smári Guðjohnsen náði ekki að skora frekar en aðrir leikmenn Íslands í kvöld. Árni Torfason

"Því miður vorum við ekki nógu skipulagðir. Við fengum nóg af færum og ég verð að taka það á mig að ég hefði átt að nýta eitt eða tvö þeirra," sagði Eiður Smári Guðjohnsen landsliðsfyrirliði í knattspyrnu í samtali við Sýn í kvöld, eftir tapið stóra gegn smáríkinu Liechtensten, 3:0, í undankeppni EM í Vaduz.

"Því miður vorum við ekki nógu skipulagðir. Við fengum nóg af færum og ég verð að taka það á mig að ég hefði átt að nýta eitt eða tvö þeirra. Við vorum slegnir útaf laginu við það að fá á okkur markið og vorum staðráðnir í að breyta því í síðari hálfleik en það tókst ekki. Þriðja markið undirstrikar svo daginn sem við áttum og daginn sem þeir áttu að það kemur maður hjá þeim og skýtur með vinstri uppí vinkilinn," sagði Eiður Smári.

"Ef okkur hefði tekist að jafna og nýta eitthvað af þessum hálffærum sem við fengum, hefði þetta þróast öðruvísi en í heildina er þetta sennilega sanngjarn sigur, þó erfitt sé að viðurkenna það.

Við þurfum að líta í eigin barm og fara í leikinn gegn Dönum með stolti í huga, og ekki gleyma því að við spilum fyrir land og þjóð. Það þarf greinlega að fara yfir ýmsa hluti, það er ömurlegt að fylgja eftir þessum tveimur leikjum í september á þennan hátt. Við bognum en brotnum ekki. Það þýðir ekki að hengja haus."

Landsliðsfyrirliðinn vildi ekki segja neitt um hvort agaleysi hefði verið í liðinu, það væri erfitt að átta sig á því strax eftir leik. "En þeir höfðu alltaf tíma með boltann, virtust alltaf hafa tíma til að spila honum frá sér, á meðan við vorum alltaf með mann í bakinu um leið og við fengum boltann," sagði Eiður Smári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert