Eiður: Ég er ekki á förum

Eiður Smári Guðjohnsen hefur engan áhuga á að fara frá …
Eiður Smári Guðjohnsen hefur engan áhuga á að fara frá Barcelona. AP

Eiður Smári Guðjohnsen, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, segir í viðtali við spænskt blað að hann hafi engan áhuga á að yfirgefa Barcelona og myndi neita öllum boðum um slíkt á þessari stundu.

„Ég er á mínu besta skeiði með Barcelona þessa dagana. Ég er í mjög góðri æfingu og hef mikinn hug á að vera liðinu til hjálpar. Þjálfarinn hefur trú á mér og það hefur mjög mikið að segja. Í september hafði ég í huga að ég myndi fara frá félaginu ef ekki yrðu breytingar á mínum högum en nú er það útilokað," sagði Eiður við blaðið El Periodico Barcelona í dag.

„Ég útiloka að fara frá Barcelona vegna þess að ég vil vinna titla með félaginu. Ég þekki allt og alla hjá Barcelona og veit að ég myndi hvergi vera betur settur. Ef annað félag hefur samband, mun ég hafna því," sagði Eiður en í morgun var því slegið upp í Englandi að Newcastle, West Ham og Manchester City ætluðu öll að gera tilraun til að fá hann í sínar raðir í janúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert