Real Madrid sigraði - Eiður úti í kuldanum

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Reuters

Eiður Smári Guðjohnsen sat á varamannabekk Barcelona í stórleik spænsku knattspyrnunnar í dag þegar liðið tók á móti meistaraliði Real Madrid. Julio Cesar Baptista skoraði eina mark leiksins á 36. mínútu en Real Madrid var mun sterkari aðilinn í leiknum. 

Sigurmarkið var stórglæsilegt en þar splundruðu sóknarmenn Real Madrid vörn Börsunga og Baptista þrumaði boltanum í netið með skoti rétt utan við vítateig.

Barcelona er núna 7 stigum á eftir Real Madrid og verður erfiður róður fyrir Börsunga að ná meistaraliðinu að stigum. Áhorfendur létu sig ekki vanta á Camp Nou en 98.278 áhorfendur mættu á leikinn en fyrir stórslaginn hafði Barcelona ekki tapað leik á keppnistímabilinu á heimavelli. 

Giovani kom inná sem varamaður í liði Börsunga fyrir Deco á 52. mínútu og varnarmaðurinn Gianluca Zambrotta kom inn á völlinn á 77. mínútu í stað Puyol. Frank Rijkaard settti síðan Bojan Krkić inná völlinn á 82. mínútu.

Ósigur Barcelona mun verða til þess að framtíð Rijkaard verður aðalumræðuefnið í jólafríinu sem stendur yfir í tvær vikur.

Landi hans og fyrrum samherji í hollenska landsliðinu og AC Milan á Ítalíu, Marco van Basten, hefur verið nefndur sem líklegur arftaki Rijkaard. Og að sjálfsögðu hefur Jose Mourinho fyrrum knattspyrnustjóri Chelsea verið orðaður við starfið.
 

Byrjunarlið Barcelona: Valdés; Puyol, Márquez, Milito, Abidal; Xavi, Touré, Deco; Iniesta, Ronaldinho og Etoo.

Byrjunarlið Real Madrid: Casillas; Sergio Ramos, Cannavaro, Pepe, Heinze; Sneijder, Diarrá, Baptista, Robinho; Raúl og Van Nistelrooy. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert