Theódór: „Skref fram á við að fara til Lyn“

Theódór Elmar Bjarnason.
Theódór Elmar Bjarnason. Eggert Jóhannesson

„Að mínu mati er þetta skref fram á við fyrir mig sem knattspyrnumann. Ég mun fá tækifæri til þess að spila með aðalliði í sterkri deild og mér líst vel á Lyn sem félag. Hér er mikill metnaður og þjálfari liðsins, Henning Berg, lagði mikla áherslu á að fá mig til liðsins,“ sagði landsliðsmaðurinn Theódór Elmar Bjarnason við mbl.is í kvöld en forráðmenn Celtic í Skotlandi og Lyn í Noregi hafa komist að samkomulagi um að hann gangi í raðir Lyn.

„Ég mun fara til Skotlands á morgun og ganga frá lausum endum í Glasgow og á mánudaginn mæti ég á mína fyrstu æfingu með Lyn.“

Theódór, sem er 21 árs gamall, átti eftir rúmt ár eftir af samningi sínum við Celtic en hann hefur lítið fengið að spreyta sig með aðalliði Celtic. Hann lék 10 leiki í efstu deild árið 2004 með KR áður en hann samdi við Celtic en hann fékk aðeins tækifæri í einum leik með aðalliði Celtic á tveggja ára tímabili. Tveir íslenskir landsliðsmenn verða í röðum Lyn á næstu leiktíð en varnarmaðurinn Indriði Sigurðsson hefur leikið með Lyn undanfarin misseri.

Nánar í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert