Stórsigur ÍBV í Víkinni

Pétur Runólfsson með boltann í leiknum í kvöld en hann …
Pétur Runólfsson með boltann í leiknum í kvöld en hann gerði eitt marka ÍBV. mbl.is/Árni Sæberg

Eyjamenn héldu áfram sigurgöngunni í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar þeir unnu Víking R. örugglega í Víkinni, 4:1. Tveir Víkinganna fengu rauða spjaldið. Þá gerðu Fjarðabyggð og Leiknir R. jafntefli á Eskifirði, 2:2.

Eyjamenn hafa nú unnið sex fyrstu leiki sína í deildinni og eru með örugga forystu en í kvöld fengu þeir á sig sitt fyrsta mark á tímabilinu.

Þórhallur Hinriksson kom Víkingi yfir strax á 4. mínútu úr vítaspyrnu en á 18. mínútu hafði hann fengið tvö gul spjöld og var rekinn af velli. Pétur Runólfsson jafnaði fyrir ÍBV á 24. mínútu og staðan 1:1 í hálfleik.

Atli Heimisson kom ÍBV í 2:1 á 54. mínútu. Annar Víkingur, Runólfur Sigmundsson, fékk rauða spjaldið á 79. mínútu og tveimur fleiri bættu Eyjamenn við tveimur mörkum í lokin, Matt Garner og Ingi Rafn Ingibergsson var þar á ferð.

Leiknir R. stefndi í sigur á Eskifirði því Halldór K. Halldórsson og Jakob Spangsberg skoruðu tvívegis snemma í seinni hálfleik, 2:0. En Austfirðingar jöfnuðu metin því Sveinbjörn Jónasson skoraði tvívegis fyrir þá á síðustu 11 mínútum leiksins, 2:2. Í lokin var Jóhann R. Benediktsson hjá Fjarðabyggð rekinn af  velli.

Fjórir aðrir leikir fara fram í deildinni í kvöld en þeir hófust síðar en þessir tveir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert