Brynjar tryggði Víkingi sigur á síðustu mínútu

Brynjar Víðisson tryggði Víkingi Ólafsvík, 4:3, sigur á Selfossi með marki úr langskoti frá miðju á síðustu mínútu á heimavelli í kvöld. Þar með halda Víkingar áfram góðu gengi á heimavelli í 1. deild karla í knattspyrnu en Selfossliðið, sem komst yfir 3:2, tapaði þremur mikilvægum stigum í baráttu um sæti í Landsbankadeild á næstu leiktíð.

Leikmenn Selfoss hófu leikinn í Ólafsvík af krafti og komust yfir strax á annarri mínútu. Josip Marosevic jafnaði metin 12 mínútum síðar og kom Víkingi yfir á 16. mínútu.  Henning Þór Jónasson svaraði fyrir Selfoss á 38. mínútu og markahrókurinn Sævar Þór Gíslason kom  Selfossi yfir með marki úr vítaspyrnu á 40. mínútu.

Heimamenn voru sterkari í síðari hálfleik og náði að jafna metin á 73. mínútu, 3:3, með sjálfsmarki eins leikmanna Selfoss. Á lokakaflanum sótti leikmenn Víkings nokkuð og uppskáru sigur með glæsimarki Brynjars sem kom til liðsins í vor að láni frá HK. 

Vegna vatnsveðursins í Ólafsvík í kvöld léku liðin í fjórum gerðum af búningum. Bæði skiptu um sett í hálfleik og fóru í varabúningana og komu því bæði til leiks í allt öðrum litum í seinni hálfleik en í þeim fyrri. 

Tveir leikir til viðbótar áttu að fara fram í 1. deild í kvöld en báðum var frestað til morguns vegna þess að ekkert var flogið innanlands.  Stjarnan og Fjarðabyggð mætast klukkan 12 á morgun á Stjörnuvelli og geta Stjörnumenn minnkað forskot Selfoss í öðru sæti deildarinnar niður í tvö stig með sigri. Þá sækja KA menn Leiknisliðið heim í Breiðholtið klukkan 16. Þeim leik var einnig frestað í kvöld. Þriðji leikur morgundagsins í 1. deild verður klukkan 14 þegar KS/Leiftur og Njarðvík leiða saman hesta sína á Siglufirði. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert