Kaká og Alonso af stað með Real

Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu gegn Toronto í gær.
Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu gegn Toronto í gær. Reuters

Brasilíumaðurinn Kaká sýndi góða takta í frumraun sinni með stórstjörnum prýddu liði Real Madrid þegar það vann 5:1 sigur á FC Toronto í æfingaleik á þjóðarleikvangi Kanada í nótt. Xabi Alonso sem er nýkominn frá Liverpool lék einnig sinn fyrsta leik fyrir félagið.

„Að mínu mati er það mjög mikilvægt að vinna sigur í mínum fyrsta leik,“  sagði Kaká eftir leikinn í samtali við Marca og hann er ánægður með sitt nýja lið.

„Allir leikmenn Madrid eru frábærir; Guti, [Raúl] Albiol og [Alvaro] Arbeloa. Við sýndum fram á að við erum lið en ekki einstaklingar því í seinni hálfleiknum héldum við uppteknum hætti og áttum fullt af færum,“  sagði Kaká.

Kaká kom til Real frá AC Milan í sumar en kom síðar til æfinga hjá liðinu en flestir aðrir vegna þátttöku Brasilíu í Álfukeppninni. Hann náði vel saman við aðrar nýjar stjörnur í liðinu, þá Cristiano Ronaldo og Karim Benzema, sem voru á skotskónum og gerðu sitt hvort markið. Gulldrengurinn Raúl skoraði tvö og Arjen Robben það fimmta.

Alonso lék síðasta hálftímann fyrir Madridinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert