Rakel: Ekkert vanmat í gangi hjá okkur

Rakel Hönnudóttir sækir að Kerstin Stegemann í viðureign Íslands og …
Rakel Hönnudóttir sækir að Kerstin Stegemann í viðureign Íslands og Þýskalands á EM í Finnlandi. mbl.is/Golli

,,Ég ætla bara að reyna að standa mig sem best," sagði Rakel Hönnudóttir, markadrottningin í liði Þórs/KA, við mbl.is en hún fær tækifæri á að láta ljós sitt skína með íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í kvöld þegar það mætir Eistum í undankeppni HM.

Rakel leikur í kvöld sinn 20. landsleik en þessi 21 árs gamla Akureyrarmær er í harðri keppni við Kristínu Ýr Bjarnadóttur úr Val um að verða markadrottning Pepsi-deildarinnar. Báðar hafa skorað 23 mörk en ein umferð er eftir af deildinni.

,,Við ákváðum að leggja Evrópumótið í Finnlandi til hliðar og einbeita okkur alfarið að þessari keppni. Við höfum sett okkur það markmið að komast í úrslitakeppnina og þessi leikur er mjög mikilvægur á þeirri leið. Við viljum sýna og sanna það og sanna fyrir okkur og þjóðinni að við erum með gott lið þó svo að við höfum tapað öllum leikjunum í Finnlandi. Við vitum ekkert um lið Eistlands en við búum okkur bara undir erfiðan leik. Það er ekkert vanmat í gangi hjá okkur,“ sagði Rakel.

Mörg lið á Reykjavíkursvæðinu vildu fá Rakel í sínar raðir fyrir tímabilið en hún ákvað að halda kyrru fyrir hjá Þór/KA. En hvað hyggst hún gera fyrir næsta tímabil?

,,Ég ætla bara að ákveða mig eftir tímabilið. Ég á eitt ár eftir af samningi mínum við Þór/KA og væntanlega verður minna um símhringingar heldur en í fyrra,“ sagði Rakel, sem leikur í stöðu hægri kantmanns í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert