FIFA hótar að reka Chile úr HM

Chilebúar fagna marki gegn Ekvador í undankeppni HM.
Chilebúar fagna marki gegn Ekvador í undankeppni HM. Reuters

FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandið, hefur gefið knattspyrnusambandinu í Chile þriggja sólarhringa frest til að bregðast við málaferlum félagsliðs í landinu. Verði ekkert gert, setji FIFA Chile í bann og þá gæti liðinu verið meinuð þátttaka í úrslitakeppni HM í Suður-Afríku á næsta ári.

Knattspyrnufélagið Rangers féll úr efstu deild í Chile í kjölfar þess að þrjú stig voru tekin af liðinu fyrir að nota einum of marga erlenda leikmenn í deildaleik. Félagið hefur kært úrskurðinn til almenns dómstlóls í Chile.

Það sættir FIFA sig ekki við, enda er litið svo á að afskipti borgarlegra dómstóla eða ríkisstjórna af fótboltanum séu óheimil.

FIFA hefur sent knattspyrnusambandi Chile bréf þar sem skorað er á það að fá Rangers til að hætta umræddum málarekstri. Sýni sambandið engin viðbrögð í málinu verði málefni Chile tekin fyrir á fundi framkvæmdastjórnar FIFA í Höfðaborg þann 3. desember og þar lagt til að landið verði sett í bann.

Chile tryggði sér í haust sæti í úrslitakeppni HM með því að enda í öðru sæti undankeppninnar í Suður-Ameríku, einu stigi á eftir Brasilíu, en á undan Paragvæ, Argentínu og Úrúgvæ sem öll komust á HM.

Ekvador var næst í röðinni í Suður-Ameríku og þá tapaði Kostaríka fyrir Úrúgvæ í umspili um HM-sæti. Eflaust myndu báðar þessar þjóðir gera tilkall til þess að fá sæti Chile á HM ef þannig færi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert