Gylfi Þór valinn í A-landsliðshópinn

Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Reading.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Reading. www.readingfc.co.uk

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Reading, verður í íslenska A-landsliðshópnum fyrir leikina gegn Dönum og Norðmönnum í undankeppni Evrópumótsins sem hefst í byrjun næsta mánaðar.

Fram kemur á vef Reading að Gylfi hafi verið valinn í A-landsliðshópinn sem og Brynjar Björn Gunnarsson samherji Gylfa en Ísland mætir Noregi föstudaginn 3. september og leikur síðan við Dani fjórum dögum síðar á Parken en þann sama dag leikur U21 ára landsliðið lokaleik sinn í undankeppni EM gegn Tékkum ytra.

Gylfi lék sinn fyrsta A-landsleik í maí í vor þegar Íslendingar lögðu Andorramenn, 4:0, á Laugardalsvellinum. Hann var í U21 ára liðinu sem vann eftirminnilegan sigur á Þjóðverjum, 4:1, í undankeppni EM þar sem hann skoraði eitt mark en sama kvöld gerði A-liðið aðeins 1:1 jafntefli á heimavelli gegn Liechtenstein.

mbl.is

Bloggað um fréttina