Paragvæ í úrslit án þess að vinna leik

Justo Villar varði eina vítaspyrnu og það réð úrslitum.
Justo Villar varði eina vítaspyrnu og það réð úrslitum. Reuters

Það verða Paragvæ og Úrúgvæ sem leika til úrslita um Ameríkubikarinn í fótbolta, Copa America, eftir að Paragvæjar lögðu Venesúela í vítaspyrnukeppni í Mendoza í Argentínu í nótt. 

Ekkert mark var skorað í venjulegum leiktíma eða í framlengingunni. Undir lok fyrri hálfleiks framlengingar fékk Jonathan Santana, leikmaður Paragvæ, rauða spjaldið, en bæði þjálfari og aðstoðarþjálfari liðsins voru reknir uppí stúku áður en yfir lauk.

Í vítaspyrnukeppninni skoruðu Paragvæjar úr öllum fimm spyrnum sínum af miklu öryggi og markvörður þeirra, Justo Villar, varði eina spyrnu frá Venesúela.

Paragvæ leikur þar með til úrslita í keppninni án þess að hafa unnið einn einasta leik. Liðið gerði jafntefli í öllum þremur leikjum sínum í riðlakeppninni, vann Brasilíu í vítaspyrnukeppni eftir 0:0 jafntefli og lék sama leik gegn Venesúela í nótt.

Venesúela, spútniklið keppninnar, mætir Perú í leiknum um bronsverðlaunin á laugardagskvöldið. Úrslitaleikur Úrúgvæ og Paragvæ fer síðan fram á sunnudagskvöldið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert