Aron: Tel að við séum í góðum málum

Aron Gunnarsson í landsleik á móti Dönum í Laugardalnum.
Aron Gunnarsson í landsleik á móti Dönum í Laugardalnum. mbl.is/Eggert

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, sagðist vera ánægður með að fá Norðmenn úr efsta styrkleikaflokki í undankeppni HM 2014 þegar Mbl.is tók púlsinn á honum í kvöld og tilkynnti honum um niðurstöðuna.

Ísland er í E-riðli ásamt Norðmönnum, Slóvenum, Svisslendingum, Albönum og Kýpverjum.

„Við höfum verið að spila við Noreg og höfum svo sem ekki verið að ríða feitum hesti frá leikjunum en með fullri virðingu fyrir þeim, þá finnst mér þeir vera slakasta liðið úr efsta styrkleikaflokki. Þeir eru þó ekki í efsta styrkleikaflokki að ástæðulausu en við eigum að eiga möguleika á móti þeim,“ sagði Aron við mbl.is. 

„Þetta eru kannski ekki þjóðir sem fylla Laugardalsvöllinn en við erum að leita að úrslitum og ég held að við eigum ágæta möguleika á því að hala inn fleiri stig en við höfum gert í undankeppni EM. Auk þess eru þetta nokkuð auðveld ferðalög og í flestum tilfellum leikir þar sem ágætir möguleikar eru á því að ná í stig. Ég veit lítið um Slóveníu og Albaníu en ég tel að við séum í góðum málum í þessum riðli. Auðvitað er samt varasamt að segja of mikið áður en riðillinn byrjar en mér líst vel á og hlakka til að takast á við þetta og komast aftur upp fyrir Færeyjar á heimslistanum,“ sagði Aron og hló.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert