Hilmar Geir og fjórir aðrir semja við Hauka

Haukar ætla sér greinilega stóra hluti næsta sumar.
Haukar ætla sér greinilega stóra hluti næsta sumar. Ljósmynd/Haukar.is

Knattspyrnulið Hauka sem leikur í 1. deildinni hefur heldur betur fengið liðstyrk fyrir átökin næsta sumar en það gekk frá samningum við fimm nýja leikmenn í dag.

Þrír uppaldir Haukar skrifuðu undir við félagið í dag en það eru þeir Ásgeir Þór Ingólfsson sem lék með Val í sumar, Hilmar Geir Eiðsson sem leikið hefur með Keflavík síðustu tvö ár og Hilmar Rafn Emilsson sem einnig var á mála hjá Val.

Þá skrifaði markvörðurinn Sigmar Ingi Sigurðarson undir samning við Hauka eins og mbl.is greindi frá í gærkvöldi en Sigmar kemur frá Breiðabliki. Þá hafa Haukar fengið Viktor Smára Hafsteinsson á láni frá Keflavík.

„Við erum með þessu að styrkja ákveðna þætti frá síðasta tímabili og það er náttúrlega meiriháttar að fá uppalda Haukamenn aftur í félagið. Þeir spiluðu með Haukum í úrvalsdeildinni og léku í þeirri deild á síðustu leiktíð þannig að þeir eru reynslunni ríkari sem á eftir að nýtast okkur vel,“ segir Ólafur Jóhannesson, þjálfari Hauka, við heimasíðu félagsins.

„Viktor Smári er svo efnilegur bakvörður sem við bindum miklar vonir við. Sigmar markvörður fyllir í skarð Daða en verður í samkeppni við mjög efnilegan markvörð. Við erum því komnir með mjög fínan hóp fyrir undirbúningstímabilið sem hefst á næstu dögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert