ÍA samdi við finnskan bakvörð

Þórður Þórðarson þjálfari ÍA.
Þórður Þórðarson þjálfari ÍA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úrvalsdeildarlið ÍA í knattspyrnu gekk í dag frá samningi við vinstri bakvörðinn Jan Mikael Berg en hann gerði tveggja ára samning við Akurnesinga. Berg er 27 ára gamall Finni. Þetta kemur fram á vef félagsins.

Berg var á reynslu hjá Skagaliðinu um miðjan nóvember mánuð þar sem hann æfði með liðinu í um vikutíma og lék einn æfingaleik með því gegn Stjörnunni og þótti standa sig vel.

„Við erum mjög ánægðir með að hafa fengið Jan til liðs við okkur. Hann býr yfir talsverðri leikreynslu en hann hefur allan sinn feril leikið með liðum í efstu og næstefstu deild í Finnlandi og á einnig að baki leiki með unglingalandsliðum Finna. Hann var til reynslu hjá okkur um miðjan nóvember mánuð og stóð sig mjög vel.

Hann mun koma til móts við okkur í byrjun janúar og byrja þá að æfa með okkur að nýju en hann mun styrkja okkar mannskap og auka breiddina í leikmannahópnum sem er bara jákvætt,“ segir Þórður Guðjónsson, framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags ÍA, í samtali við vef félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert