Hörður: Rifja upp gamla takta úr Fram-liðinu

Hörður Björgvin Magnússon átti frábæran leik í dag.
Hörður Björgvin Magnússon átti frábæran leik í dag. Ljósmynd/Myndasafn KSÍ

„Við lögðum upp með sterkan varnarleik og að beita skyndisóknum. Við vorum mjög sterkir varnarlega á meðan að þeir virkuðu hálfþreyttir, og kláruðum þetta eiginlega í fyrri hálfleik,“ sagði Hörður Björgvin Magnússon sem átti frábæran leik gegn Hvíta-Rússlandi í undankeppni EM U21-landsliða í dag.

Hörður lék sem vinstri bakvörður, var duglegur að koma fram völlinn og kom að þremur mörkum Íslands.

„Ég er að rifja upp gamla takta hérna síðan ég var í Fram-liðinu,“ sagði Hörður léttur. „Ég náði að leggja upp þrjú mörk og gæti bara ekki verið ánægðari. Ég er miðvörður hjá mínu félagsliði en spila sem vinstri bakvörður með landsliðinu og á meðan ég stend mig þar þá er þetta bara gaman. Ég hata nú ekkert að fara yfir miðlínuna en verð að vera snöggur til baka,“ sagði Hörður og glotti.

Emil Atlason átti einnig mjög góðan dag og skoraði þrennu í leiknum. Hörður var vitaskuld ánægður með félaga sinn.

„Við herbergisfélagarnir erum búnir að ræða vel saman. Þú sérð það, annar með þrjú mörk og hinn lagði upp þrjú,“ sagði Hörður og hló. „Við erum að finna hvorn annan vel enda þekkjum við vel inná hvorn annan. Við erum líka með Kristján Gauta frammi sem er mjög hár og öflugur í sköllunum, þannig að við þurfum bara að vera duglegir að dæla boltanum inn í teig,“ bætti hann við.

Ísland er með fullt hús stiga í sínum riðli eftir þrjá leiki af átta.

„Fyrir fyrsta leikinn lögðum við bara upp með að berjast og reyna að sýna okkar besta. Við eigum ágæta möguleika í þessum riðli, erum alla vega sterkir og getum unnið hvaða lið sem er á góðum degi,“ sagði Hörður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert