Bjarki Már atkvæðamikill í sigurleik

Bjarki Már Elísson í leik með Eisenach.
Bjarki Már Elísson í leik með Eisenach. Ljósmynd/thsv-eisenach.de

Bjarki Már Elísson fór mikinn þegar Eisenach bar sigurorð af Bergischer, 33:26, í þýsku 1. deildinni í handknattleik  í kvöld.

Bjarki skoraði 8 mörk í leiknum en Hannes Jón Jónsson lék ekki með liðinu vegna meiðsla. Þjálfari Eisenach er Aðalsteinn Eyjólfsson.

Arnór Þór Gunnarsson náði ekki að skora fyrir Bergischer en með liðinu leikur einnig markvörðurinn Björgin Páll Gústavsson.

Eisenach, sem er nýliði í deildinni, er í 16. sæti af 18 liðum í deildinni með 11 stig en Bergischer hefur 15 stig og er í 14. sæti.

Í öðrum Íslendingaslag kvöldsins vann Minden, lið Vignis Svavarssonar, sigur á Emsdetten, 34:27. Vignir var ekki á meðal markaskorara en Minden er í 15. sæti með 14 stig.

Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði 5 mörk, Oddur Gretarsson 4 og Ernir Hrafn Arnarsson eitt fyrir Emsdetten sem er sem fyrr langneðst í deildinni með aðeins 4 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert