Aron: Versti dagurinn á ferlinum

Kolbeinn Sigþórsson, til hægri, í baráttu við varnarmenn AZ í …
Kolbeinn Sigþórsson, til hægri, í baráttu við varnarmenn AZ í leiknum í gærkvöld. AFP

Aron Jóhannsson, sóknarmaður AZ Alkmaar, sagði eftir ósigurinn gegn Ajax í undanúrslitum hollensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í gærkvöld, 0:1, að sér liði mjög illa en hann nýtti ekki vítaspyrnu í leiknum.

Aroni hefur þar með brugðist bogalistin af vítapunktinum tvisvar í röð en hann brenndi líka af vítaspyrnu gegn PEC Zwolle á dögunum, án þess að það kæmi að sök fyrir AZ. Nú missti liðið hinsvegar af tækifæri til að vinna bikarkeppnina annað árið í röð. Kolbeinn Sigþórsson og félagar í Ajax fara í úrslitaleikinn gegn Zwolle 20. apríl.

„Þetta er minn versti dagur á ferlinum. Mér líður mjög illa og vona að ég eigi ekki eftir að upplifa þetta aftur," sagði Aron í viðtali við RTV Noord-Holland.

„Ég var handviss um að ég myndi skora og var ákveðinn í að taka þessa ábyrgð, sérstaklega eftir að ég hafði brennt af víti gegn PEC Zwolle. En markmaðurinn greip boltann. Þetta er hræðilegt, ef ég hefði skorað úr vítaspyrnunni hefði leikurinn verið allt öðruvísi fyrir okkur. Þá hefðum við verið yfir og manni fleiri,“ sagði Aron.

Atvikið átti sér stað á 34. mínútu en Joel Veltman var þá rekinn af velli og vítaspyrnan dæmd. AZ missti líka mann af velli með rautt spjald í upphafi síðari hálfleiks og Lasse Schöne skoraði sigurmarkið strax í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert