Mark frá Benzema skildi stórliðin að

Rándýr skipting! Cristiano Ronaldo fer af velli og Gareth Bale …
Rándýr skipting! Cristiano Ronaldo fer af velli og Gareth Bale kemur inná í staðinn hjá Real Madríd. AFP

Real Madríd sigraði Bayern München, 1:0, í fyrri undanúrslitaleik liðanna í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu á Santiago Bernabéu leikvanginum í Madríd í kvöld.

Karim Benzema skoraði eina markið strax á 18. mínútu eftir vel útfærða skyndisókn. Bayern réð ferðinni á vellinum lengst af en gekk illa að skapa sér góð færi. Real Madríd fór hinsvegar illa með góð tækifæri til að bæta við mörkum í seinni hálfleiknum.

Besta færi Bayern til að jafna kom skömmu fyrir leikslok þegar Iker Casillas varði glæsilega frá Mario Götze af stuttu færi.

Pep Guardiola þjálfari Bayern mátti þar með þola sitt fyrsta tap á Santiago Bernabéu sem þjálfari, en hann tapaði aldrei þar í sjö leikjum á meðan hann stjórnaði Barcelona. Carlo Ancelotti, þjálfari Real, hefur hinsvegar aldrei tapað í sjö leikjum sem hann hefur stjórnað gegn Bayern í Meistaradeildinni.

Liðin mætast aftur í München næsta þriðjudagskvöld, 29. apríl, og óhætt er að segja að bæði einvígi undanúrslitanna séu í járnum því Atlético Madríd og Chelsea gerðu markalaust jafntefli í gærkvöld.

Real Madríd - Bayern München 1:0
Karim Benzema 18.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

20.36 - Leik lokið - Howard Webb flautar til leiksloka. Real Madríd fer með 1:0 forskot í seinni leikinn á Allianz-leikvanginum í München næsta þriðjudagskvöld. Þar verður barist!

20.34 - Thomas Müller í dauðafæri á markteig en Xabi Alonso bjargar. Müller mótmælir harðlega og telur Spánverjann hafa brotið á sér! Howard Webb ekki sammála. Tæplega brot.

20.32 - 90 mínútur liðnar, fjórum bætt við.

20.26 - Dauðafæri Bayern á 84. mínútu! Mario Götze fær boltann rétt utan markteigs og þrumar á markið. Iker Casillas ver glæsilega!

20.23 - Isco fer af velli hjá Real á 82. mínútu og Illarramendi kemur í hans stað.

20.18 - Gareth Bale er kominn inná hjá Real á 75. mínútu og það er Cristiano Ronaldo sem víkur fyrir honum.

20.14 - Mario Götze kemur inná fyrir Franck Ribéry hjá Bayern á 72. mínútu. Hjá Real kemur Varane inná fyrir  Pepe, sem er meiddur, á 73. mínútu. Áður var Javi Martínez kominn inná hjá Bayern í staðinn fyrir Rafinha.

20.10 - Cristiano Ronaldo kemst uppað vítateig Bayern á 68. mínútu og á skot sem Manuel Neuer ver tiiltölulega örugglega í horn.

20.01 - Stuðningsmenn Real fagna og ástæðan er sú að Gareth Bale var að byrja að hita upp. Hann hefur verið veikur og var því ekki í byrjunarliði Spánverjanna. Korter liðið af síðari hálfleiknum.

19.49 - Seinni hálfleikur er hafinn og strax á 47. mínútu þarf Manuel Neuer í marki Bayern að hafa fyrir því að verja skot frá Cristiano Ronaldo.

19.40 - Tölfræði leiksins segir að Bayern hafi átt 381 heppnaða sendingu í fyrri hálfleik á móti 75 hjá Real Madríd!

19.31 - Hálfleikur á Santiago Bernabéu og staðan er 1:0 fyrir Real Madríd. Bayern hefur verið með boltann 75 prósent af leiknum og fengið 9 hornspyrnur gegn einni sem Real fékk í uppbótartímanum. En spænska liðið er yfir og hefur fengið tvö dauðafæri til að bæta við markatöluna!

19.26 - Aftur fær Real opið færi. Nú er það Ángel Di Maria sem fær boltann á hægra markteigshorni, einn gegn Manuel Neuer markverði, en þrumar yfir mark Þjóðverjanna á 41. mínútu.

19.11 - Sannkallað dauðafæri! Skyndisókn Real Madríd og Cristiano Ronaldo er einn gegn markverði Bayern en þrumar boltanum yfir markið á 26. mínútu!

19.03 - MARK - 1:0. Skyndisókn hjá Real, Fabio Coentrao sendir fyrir mark Bayern frá vinstri og Karim Benzema rennir boltanum í netið af markteig! Á 18. mínútu og úr fyrstu alvöru sókn Real í leiknum, sem kom í kjölfarið á hættu í vítateig liðsins þar sem Toni Kroos skaut í Pepe á markteignum. Markaleysi í gærkvöld - þurftum ekki að bíða lengi eftir marki í kvöld!

19.00 - Frísklegri byrjun hjá Bayern sem var mun meira með boltann fyrstu 15 mínúturnar. Arjen Robben átti fyrsta hættulega markskotið en rétt framhjá marki Real á 14. mínútu.

18.45 - Leikurinn er hafinn!

Real Madrid: Casillas, Pepe, Ramos, Coentrao, Carvajal, Alonso, Modric, Di Maria, Isco, Ronaldo, Benzema.
Varamenn: Lopez, Varane, Marcelo, Bale, Casemiro, Illarramendi, Morata.

Bayern: Neuer, Dante, Rafinha, Boateng, Lahm, Ribery, Robben, Alaba, Schweinsteiger, Kroos, Mandžukic.
Varamenn: Zingerle, Raeder, Martinez, Gotze, Weiser, Muller, Pizarro.

18.43 - Carlo Ancelotti, þjálfari Real, hefur aldrei tapað leik gegn Bayern í Meistaradeildinni, í sex tilraunum. Pep Guardiola þjálfari Bayern hefur aldrei tapað á Santiago Bernabéu, í sjö heimsóknum. Halda þeir báðir sínu strik í kvöld eða hvað?

18.27 - Bayern hefur tapað í síðustu fimm heimsóknum sínum á Santiago Bernabéu. Þar er meðtalinn úrslitaleikur Meistaradeildarinnar árið 2010 þegar Þjóðverjarnir biðu þar lægri hlut fyrir Inter Mílanó.

17.50 - Pep Guardiola mætir enn og aftur með lið á Santiago Bernabéu þar sem hann háði marga hildi með Barcelona, sem leikmaður og síðan sem þjálfari undanfarin ár. Nú stýrir hann Bayern og stefnir á að vinna fimm titla á sínu fyrsta ári þar. Guardiola tapaði aðeins tveimur leikjum af fimmtán þegar hann stýrði Barcelona gegn Real Madríd.

17.47 - Lið Evrópumeistara Bayern er klárt og er þannig:
Bayern: Neuer; Rafinha, Dante, Boateng, Alaba; Lahm; Robben, Kroos, Schweinsteiger, Ribéry; Mandzukic.

17.46 - Cristiano Ronaldo spilar með Real Madríd í kvöld, hefur náð sér af meiðslum, en Gareth Bale hefur verið veikur og verður á varamannabekknum.
Lið Real: Casillas; Carvajal, Pepe, Ramos, Coentrão; Di María, Modric, Xabi Alonso, Isco; Benzema, Ronaldo.

17.30 - Hér eru á ferð tvö af sigursælustu knattspyrnufélögum Evrópu. Bayern er ríkjandi Evrópumeistari en liðið vann Dortmund, 2:1, í úrslitaleik á Wembley síðasta  vor. Það var fimmti Evrópumeistaratitill þýska liðsins og annar úrslitaleikurinn í röð en liðið tapaði fyrir Chelsea í úrslitunum 2012. Real Madríd hefur hinsvegar orðið Evrópumeistari oftast allra, níu sinnum, en hefur ekki unnið keppnina síðan 2002 og ekki komist í úrslitaleikinn frá þeim tíma.

Þetta er í 15. skipti sem Real Madríd og Bayern München mætast í Meistaradeildinni og það er metjöfnun. Aðeins Barcelona og AC Milan höfðu þar til í kvöld mæst ofar í keppninni.

Philipp Lahm í færi við mark Real Madríd en Iker …
Philipp Lahm í færi við mark Real Madríd en Iker Casillas markvörður lokaði á hann og boltinn fór í hliðarnetið. AFP
Karim Benzema fagnar eftir að hafa komið Real Madríd yfir …
Karim Benzema fagnar eftir að hafa komið Real Madríd yfir á 18. mínútu. AFP
Sergio Ramos varnarmaður Real og Bastian Schweinsteiger miðjumaður Bayern eigast …
Sergio Ramos varnarmaður Real og Bastian Schweinsteiger miðjumaður Bayern eigast við í leiknum í kvöld. AFP
Leikmenn Bayern München hita upp á Santiago Bernabéu.
Leikmenn Bayern München hita upp á Santiago Bernabéu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert