Benfica og Sevilla unnu fyrri leikina

Ezequiel Garay fagnar eftir að hafa komið Benfica yfir gegn …
Ezequiel Garay fagnar eftir að hafa komið Benfica yfir gegn Juventus í kvöld. AFP

Benfica frá Portúgal sigraði Juventus frá Ítalíu, 2:1, og Sevilla lagði Valencia, 2:0, í viðureign spænsku liðanna þegar fyrri leikirnir í undanúrslitum Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu fóru fram í kvöld.

Argentínski miðvörðurinn Ezequiel Garay kom Benfica yfir strax á 3. mínútu gegn Juventus í Lissabon og staðan var þannig þar til 20 mínútum fyrir leikslok þegar Carlos Tévez jafnaði metin fyrir ítölsku meistarana. Hans fyrsta Evrópumark í fimm ár. Brasilíski varamaðurinn Lima skoraði sigurmarkið með stórglæsilegu skoti sex mínútum fyrir leikslok, 2:1.

Sevilla skoraði mörkin gegn Valencia á þriggja mínútna kafla seint í fyrri hálfleik. Stéphane M'Bia gerði það fyrra og Carlos Bacca það síðara.

Seinni leikir liðanna fara fram eftir viku í Tórínó og Valencia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert