Glæsimark Guðjóns gegn Gautaborg

Guðjón Baldvinsson ógnar marki Gautaborgar í leiknum í dag.
Guðjón Baldvinsson ógnar marki Gautaborgar í leiknum í dag. Ljósmynd/Gunnar Elíson

Guðjón Baldvinsson skoraði stórglæsilegt mark fyrir Halmstad í dag þegar liðið gerði jafntefli á heimavelli, 2:2, gegn IFK Gautaborg í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Guðjón kom Halmstad í 2:0 á 56. mínútu þegar hann einlék upp allan völlinn, lék á markvörð Gautaborgar og skoraði. Einhverjum sænskum fjölmiðlum þótti tilþrifin minna á frægt mark Diego Maradona gegn Englandi á HM 1986.

Liðinu tókst hinsvegar ekki að halda fengnum hlut, missti tvö dýrmæt stig því Gautaborg skoraði tvívegis áður en yfir lauk og jafnaði metin.

Guðjón lék allan leikinn með Halmstad sem er næstneðst með 11 stig en Kristinn Steindórsson spilaði fyrstu 82 mínúturnar. Hjálmar Jónsson lék ekki með Gautaborg sem er í 6. sæti með 23 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert