Cavani: Líður vel í París

Cavani í leik með Úrúgvæ á HM í Brasilíu.
Cavani í leik með Úrúgvæ á HM í Brasilíu. AFP

Úrúgvæski framherjinn Edison Cavani sem leikur með Paris Saint-Germain í Frakklandi reiknar með því að vera áfram hjá félaginu en orðrómur hefur verið um að hann sé óánægður hjá félaginu og hafi viljað finna sér lið í ensku úrvalsdeildinni.

Cavani er sagður hafa verið óánægður með það að hafa verið látinn spila úti á kanti og hefur enska úrvaldsdeildarliðið Chelsea meðal annars verið orðað við kappann en nú virðist framtíð vera í frönsku höfuðborginni.

„Mér líður vel í París og ég reikna með að vera hér áfram. En miðað við hvernig þessi félagsskiptagluggi hefur þróast veit enginn hvað gerist,“ sagði Cavani við úrúgvæska fjölmiðilinn Ovación.

„Hugmyndin var sú að ég yrði áfram í París og eigandinn var á sama máli,“ sagði Cavani sem vann bæði deild og bikar með PSG í deildinni og skoraði 25 mörk í öllum keppnum. Þá lék Cavani einnig með Úrúgvæ á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu og skoraði eitt mark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert