Gylfi: Verð ekki alveg nýi gaurinn

Gylfi Þór Sigurðsson er ánægður með vistaskiptin til Swansea.
Gylfi Þór Sigurðsson er ánægður með vistaskiptin til Swansea. AFP

„Þetta leggst mjög vel í mig. Hópurinn er mjög góður og ekki verra að ég þekki fullt af strákum, svo ég mæti á æfingu og er ekki alveg nýi gaurinn á svæðinu, sem er kostur,“ sagði landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson í samtali við Morgunblaðið í kvöld, en hann skrifaði í dag undir fjögurra ára samning við velska liðið Swansea.

Hann kemur til liðsins frá Tottenham eftir tveggja ára veru þar og kveður félagið sáttur. „Þetta var mjög fínn tími og alltaf leiðinlegt að fara frá félagi þar sem manni líður vel. En eftir að ég heyrði af áhuga Swansea þá gerði það ákvörðunina mjög auðvelda,“ sagði Gylfi, sem fékk þó ekki mikið að spila í sinni stöðu á miðjunni.

„Ég var ekkert ósáttur við spiltímann þannig en það sem mér fannst verst var að vera mikið á vinstri kantinum. Ég var ekki að leita eftir því þegar ég fór til Tottenham en ég vissi alltaf að það yrði gríðarlega mikil samkeppni. Ég vonast til að spila annaðhvort meira á miðri miðjunni hjá Swansea eða fyrir aftan framherjana, bara að ég losni af kantinum,“ sagði Gylfi.

Ítarlegt viðtal við Gylfa Þór Sigurðsson má finna í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert